Fótbolti

Harpa auglýsir leikinn sem hún fær síðan ekki að spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir. Vísir/Getty
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta varð fyrir áfalli á dögunum þegar framherjinn öflugi Harpa Þorsteinsdóttir sleit krossband í bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks.

Harpa hefur verið aðalmarkaskorari íslenska landsliðsins síðustu ár og reynsla hennar í leik eins og þeim á móti Þýskalandi á laugardaginn hefði verið gulls ígildi.

Krossbandaslitið þýðir hins vegar að hún fær ekki að spila þennan gríðarlega mikilvæga leik.

Meiðsli Hörpu verða enn dramatískari þegar menn sjá þessa auglýsingu hér fyrir neðan því þar er Harpa að auglýsa leikinn sem hún fær síðan ekki að spila.

Skilaboðin frá Hörpu í auglýsingunnni umræddu eru hins vegar mjög skýr: „Fyllum völlinn og pökkum þeim saman,“ segir Harpa meðal annars í þessari auglýsingu.

Harpa Þorsteinsdóttir hefur skorað 19 mörk fyrir íslenska A-landsliðið þar af fimm þeirra á Laugardalsvellinum.

Leikur Íslands og Þýskalands fer fram klukkan 15.00 á Laugardalsvelli á laugardaginn. Miðasalan hefur farið frábærlega af stað og það er góður möguleiki að stelpurnar okkar spili fyrir fullum Laugardalsvelli í fyrsta sinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.