Sport

Sjáðu stökkin sem komu Valgarði í úrslit á EM í fimleikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valgarð Reinhardsson.
Valgarð Reinhardsson. Vísir/Getty

Valgarð varð í gærkvöldi aðeins annar Íslendingurinn í sögunni til að komast í úrslit á Evrópumótinu í fimleikum.

Íslenski fimleikamaðurinn Valgarð Reinhardsson er kominn í úrslit í stökki á Evrópumótinu í áhaldafimleikum eftir frábæra frammistöðu í Glasgow í gær.

Valgarð er fyrstur Íslendinga til að keppa í úrslitum á stökki á Evrópumóti í fullorðinsflokki og annar Íslendingurinn í sögunni til að tryggja sig í úrslit á Evrópumóti.

Enginn Íslendingur hefur komist í úrslit á Evrópumóti síðan árið 2004 þegar Rúnar Alexandersson komst í úrslit á bogahesti.

Valgarð varð fimmti inn í úrslitin og fékk fyrir stökkin sín einkunnina 14,233. Alls komast átta keppendur í úrslit á hverju áhaldi, en til þess að komast í úrslit þarf að keppa með tvö stökk úr mismunandi erfiðleikaflokki.

Hér fyrir neðan má sjá stökkin sem komu Valgarði í úrslit.

Valgarð er 22 ára á árinu og núverandi Íslandsmeistari og fimleikamaður ársins 2017. Valgarð er úr Gerplu en æfir nú með Alta í Kanada sem kosið var besta fimleikafélagið þarlendis árið 2013.

Á sínu fyrsta ári í Kanada varð Valgarð í tólfta sæti á kanadíska meistaramótinu og í ellefta sæti á Elite Canada, sem er mót þeirra bestu þar í landi og einungis þeir sem hljóta boð fá þátttökurétt.

Úrslit á einstökum áhöldum fullorðinna hefjast klukkan 13.25 á sunnudaginn á íslenskum tíma  Úrslit á stökki hefjast samkvæmt skipulagi klukkan 15:30.

Keppendurnir sem komust í úrslit eru eftirfarandi:
1. Adrey Medvedev frá Ísrael með einkunnina 14,849
2. Igor Radivilov frá Úkraínu með einkunnina 14,783
3. Artur Dalaloyan frá Rússlandi með einkunnina 14,716
4. Dmitrii Lankin frá Rússlandi með einkunnina 14,383
5. Valgarð Reinhardsson frá Íslandi með einkunnina 14,233
6. Dimitar Dimitrov frá Búlgaríu með einkunnina 14,199
7. Konstantin Kuzovkov frá Georgíu með einkunnina 14,149
8. Loris Frasca frá Frakklandi með einkunnina 14,100

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.