Sport

Edda: Þurfti að sýna hugrekki, trú og styrk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Guðlaug Edda Hannesdóttir. Mynd/Fésbókarsíða Guðlaugar Eddu Hannesdóttur
Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir náði tuttugasta sæti á sínu fyrsta stórmóti og var ánægð með sitt fyrsta Evrópumót.

Guðlaug Edda sagði frá upplifun sinni af mótinu inn á fésbókarsíðu sinni þar sem hún leyfir fólki að fylgjast með henni að reyna að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020.

„Ánægð með gærdaginn á mínu fyrsta EM og fyrsta stórmóti! Ég endaði í topp 20 og fékk góð ÓL stig sem ég er ánægð með, sérstaklega á miðað við að vera rönkuð nr 37 fyrir keppni,“ skrifaði Guðlaug Edda.

„En sæti og stig skipta miklu minna máli fyrir mig heldur en hvernig ég brást við í öllum þeim erfiðu aðstæðum og áskorunum sem upp komu í keppninni. Þar sem þurfti að sýna hugrekki, trú og styrk. Ég er ánægðust af öllu með það,“ bætti hún við.

Guðlaug Edda kláraði keppnina á tveimur klukkutímum, fimm mínútur og 19 sekúndum. Hún var rétt rúmum sex mínútum á eftir Evrópumeistaranum Nicolu Spirig frá Sviss.

Guðlaug Edda var aðeins sextán sekúndum frá 19. sætinu en Rússinn Anastasia Abrosimova kom í mark á undan okkar konu.

33 komust alla leið í mark en ellefu náðu ekki að klára þessa krefjandi keppni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×