Innlent

Sjálfstæðiflokkurinn vill öflugri og víðtækari aðgerðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði Reykjavíkur.
Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði Reykjavíkur.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík segir aukafund velferðarráðs sem haldinn var í dag ekki hafa skilað þeim árangri sem vænst var til. Fundurinn fjallaði um vanda heimilislausra í borginni og var samþykkt tillaga um að ráðist í kaup á nýju neyðarskýli fyrir unga heimilislausa vímuefnaneytendur í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn segir þó að alls átta tillögum stjórnarandstöðuflokkanna hafi verið vísað til stýrishópa, skrifstofu velferðarsviðs eða frestað. Enn fremur segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum tillögur meirihlutans sem hafi verið lagðar fram í dag séu á algjörum byrjunarreit. Sem dæmi sé ekki búið að ákveða hvar áðurnefnt skýli eigi að vera eða hvenær því verði komið upp.

Sjá einnig: Leita að húsnæði undir nýtt gistiskýli

Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði Reykjavíkur, segir þær tillögur sem ræddar hafi verið í dag ekki taka á vandanum. Nauðsynlegt sé að fara í öflugri og víðtækari aðgerðir.

„Þær aðgerðir sem boðaðar voru á fundinum í dag eru þar af leiðandi aðeins lítill plástur á stórt samfélagslegt vandamál sem hefur vaxið mikið síðustu ár,“ segir Egill Þór í tilkynningunni og bætir við: „Það þarf að bregðast strax við en það er farið að styttast í veturinn. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið enda fóru stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn fram á aukafund í velferðarráði fyrr í sumar og vildum við nýta tímann til að finna lausnir fyrir heimilislausa.“

„Það eru vonbrigði að ekki voru allar þær tillögur til lausnar vandans sem lagðar voru fram af stjórnarandstöðuflokkunum á aukafundi borgarráðs í síðasta mánuði teknar fyrir á fundi velferðarráðs í dag.“
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.