Innlent

Lokanir á umferðaræðum Suðurlands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hjáleið um Þrengsli og Óseyrarbrú er merkt með rauðu á kortinu. Almennri umferð er beint um hjáleiðina næstu viku.
Hjáleið um Þrengsli og Óseyrarbrú er merkt með rauðu á kortinu. Almennri umferð er beint um hjáleiðina næstu viku. Vísir/Hjalti

Miklar vegalokanir standa nú yfir á Suðurlandi. Ölfusárbrú verður lokað frá klukkan 16 í dag og mun lokunin standa yfir í viku. Hjáleið fyrir almenna umferð verður m.a. um Þrengsli og Óseyrarbrú. Þá er umferð til austurs um Suðurlandsveg einnig beint um hjáleið vegna malbikunarvinnu í dag.

Mjög slæmt að þurfa að loka brúnni

Eins og greint hefur verið frá þarf að steypa nýtt brúargólf á Ölfusárbrú en það tekur steypuna nokkra daga að harðna. Um sautján þúsund bílar aka á hverjum degi yfir brúna. Svanur Bjarnason er svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði.

„Það á að laga slitgólf brúarinnar, það eru komin mjög mikil hjólför í gólfið, og farið að nálgast járnin í brúnni. Það þarf að fræsa upp gólfið og steypa nýtt slitlag,“ segir Svanur.

Hann segir mjög slæmt að þurfa að loka brúnni í svona langan tíma en ekkert annað sé í stöðunni.

„Það er mjög slæmt og kemur ábyggilega illa við marga en það er algjörlega óhjákvæmilegt að gera þetta.“

Um sautján þúsund bílum er ekið yfir brúna á hverjum degi. VÍSIR/ERNIR

Gangbrautin á Ölfusárbrú verður opin á meðan brúin verður lokuð, þ.e. til mánudagsins 20. ágústs næstkomandi, og þá verður hægt að hleypa lögreglu-, sjúkra- og björgunarsveitarbílum í forgangsakstri yfir brúna. Hjáleið fyrir almenna umferð verður m.a. um Þrengsli og Óseyrabrú á Eyrarbakkavegi og í uppsveitum Árnessýslu eru hjáleiðir um Biskupstungnabraut, Skálholtsveg, Bræðratunguveg og Skeiðaveg.

Malbikun á Suðurlandsvegi til miðnættis

Þá er vegkafli milli Hellisheiðarvirkjunar og Skíðaskála á Suðurlandsvegi lokað vegna malbikunarvinnu í dag. Umferð til austurs er á meðan beint um Þrengsli og Óseyrarbrú. Áætlað er að malbikað verði til miðnættis í nótt.

Að auki hefur Þingvallavegur verið lokaður síðan í júlí milli þjónusumiðstöðvarinnar og að eystri gatnamótum við Vallaveg. Mun lokunin standa yfir fram í október og er umferð beint á hjáleið um Vallaveg.


Tengdar fréttir

Lokun yfir Ölfusá flýtt

Lokun Ölfusárbrúar í dag verður flýtt og verður henni nú lokað klukkan 16.00 í stað 20.00.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.