Lífið

Með meistaragráðu í málfræði í Miss Universe Iceland

Bergþór Másson skrifar
Hulda Vigdísardóttir, málfræðingur og keppandi í Miss Universe Iceland.
Hulda Vigdísardóttir, málfræðingur og keppandi í Miss Universe Iceland. Hulda Vigdísardóttir
Hulda Vigdísardóttir málfræðingur tekur þátt í Miss Universe Iceland í ár. Hún segir keppnina stuðla að eigin heilbrigði, sjálfsöryggi og hamingju. Keppnin fer fram þann 21. ágúst í Stapa í Hafnafirði.

Hulda Vigdísardóttir er 24 ára gömul og útskrifaðist með meistaragráðu í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands í fyrra. Hún starfar á auglýsingastofunni Pipar\TBWA.

Hulda segir í samtali við Vísi þátttöku sína í keppninni hafa komið hennar nánustu á óvart og að sumir hafi sagt hana vera „úr karakter.“

Hámenntuð á mettíma

Hulda hefur alla tíð skarað fram úr í námi en þegar hún var í áttunda bekk í grunnskóla lauk hún við allt námsefni tíunda bekkjar. Einnig var hún spretthlaupari í háskólanum.,Hún lauk við bakkalárgráðu á einungis tveimur árum og meistaragráðu á einu ári. Eðlilegur námshraði er að taka bakkalárgráðu á þremur og meistaragráðu á tveimur árum.

Hulda tekur þátt í keppninni til þess að „vekja athygli á að fjölbreytni skipti máli og maður á að fylgja hjartanu, ekki vera hræddur hvað öðrum finnst.“

Hulda segir það nauðsynlegt að keppendur í Miss Universe Iceland séu vel að sér í heimsmálum. Kunnátta þeirra um ýmis mál eins og til dæmis hnattræna hlýnun, stjórnmál og kynjajafnrétti verði könnuð í keppninni.

Lætur fordóma ekki stoppa sig

Hulda birti skoðanapistil á Vísi í dag sem vakið hefur mikla athygli.

„Jú, vissulega komum við fram í bikiníum og síðkjólum í Miss Universe Iceland en keppnin snýst samt um svo miklu meira“ segir Hulda í pistlinum.

Segist Hulda hafa verið meðvituð um hvað fegurðarsamkeppnir eru umdeildar í samfélaginu. Þrátt fyrir það hafi hún tekið verkefninu með opnum huga og skráð sig til leiks.

„Sumir hafa dálæti á fegurðarsamkeppnum á meðan að aðrir segja þær úr takti við tímann og fyrirlíta þær jafnvel. Uppspretta fordóma er þó oftar en ekki annað en þekkingar- og skilningsleysi og mig langaði að mynda mér mína eigin skoðun á Miss Universe keppninni. Ég lét því ekkert slíkt stoppa mig enda fannst mér þetta spennandi tækifæri. Ég sé sko ekki eftir því. Nei, svo langt því frá.“

Raðfegurðardrottningin Arna Ýr hreppti titilinn Miss Universe Iceland í fyrra. Hægt er að sjá hina keppendur Miss Universe Iceland hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×