Starfsfólk á einum báta Special Tours varð dýranna vart um klukkan eitt í dag. Þá hélt hópur starfsfólks fyrirtækisins út í Engey til að huga að þeim, þar á meðal Sverrir Tryggvason, skipstjóri bátsins Dagmar.
Landhelgisgæslan og starfsmenn hvalaskoðunafyrirtækjanna Elding og Whale Safari eru einnig á svæðinu.
Sverrir segir við Vísis að andarnefjurnar hafi að líkindum fest sig í fjörunni við að elta makríl. Hópurinn hafi reynt að koma handklæðum og lökum yfir dýrin til að halda á þeim hita og bera vatn til að hella yfir þær. Aðrir starfsmenn séu á leiðinni með dælu til að dæla vatni yfir þær og fleiri handklæði og fötur.
Myndskeiðið í spilaranum hér fyrir neðan tók Sverrir af hvölunum í Engey.
Andarnefjurnar eru illa haldnar, að sögn Sverris. Þær eru alveg á þurru og kremjast undan eigin þunga í fjörunni. Þær séu nánast hættar að hreyfa sig, heldur liggi aðeins og andi. Mikið sé af blóði því þær hafi skorið sig á steinunum í fjörunni.
Sverrir er vongóður um að hægt sé að bjarga andarnefjunum ef þeim tekst að halda þeim blautum. Önnur þeirra sé hins vegar fest í töluverðri dæld og falla þurfi vel að áður en hægt verði að hreyfa hana.



