Innlent

Tunglið rautt á himni víða um jörð

Samúel Karl Ólason skrifar
Blóðmáni yfir Makedóníu í janúar.
Blóðmáni yfir Makedóníu í janúar. Vísir/EPA
Nú í kvöld, föstudagskvöld, 27. júlí, verður tunglið rautt á himni víða um jörð. Þetta verður lengsti tunglmyrkvi aldarinnar, eða allt til ársins 2123. og er ljóst að um mikið sjónarspil er að ræða. Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari og vísindamiðlari, bendir á að almyrkvinn, það er að segja blóðmáninn, muni því miður ekki sjást frá Íslandi. Sævar segir að almyrkvinn verði því miður búinn þegar tunglið rís hjá okkur klukkan 22:38 í kvöld. Þá verður reyndar hálfskuggamyrkvi en hann sést ekki með berum augum. 

Annars verður hægt að fylgjast með þessu fyrirbæri á netinu fyrir áhugasama.

Tunglmyrkvi gerist þegar jörðin fer á milli tunglsins og sólarinnar, sem er öfugt við sólmyrkva þegar tunglið fer á milli jarðarinnar og sólarinnar. Á föstudaginn mun allt tunglið falla í skugga jarðarinnar og verða rautt, sem gerist vegna speglunar sólskyns sem fer í gegnum lofthjúp jarðarinnar. Því kallast þetta fyrirbæri blóðmáni.

Hér má sjá hvar tunglmyrkvinn verður sýnilegur og hve lengi.Vísir/NASA
Forsvarsmenn The Virtual Telescope Project munu koma myndavél fyrir á Palatinehæð í Róm og beina henni að tunglinu og hringleikahúsinu.

Bein útsending hefst klukkan hálf sjö á föstudagskvöldið.

Uppfært klukkan 13:08:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að blóðmáninn myndi sjást frá Íslandi. Það er hins vegar rangt líkt og Sævar Helgi benti á og hefur verið leiðrétt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×