Innlent

Vosbúð í vestri út vikuna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Verið velkomin til Íslands, blautu ferðamenn.
Verið velkomin til Íslands, blautu ferðamenn. Vísir/vilhelm

Veðrið þessa vikuna verður svipað og landsmenn hafa fengið að kynnast í sumar. Veðurstofan gerir ráð fyrir vosbúð sunnan- og vestanlands út vikuna en prýðilegu veðri og fínasta sumarhita norðan- og austanlands.

Spáin er svohljóðandi „að minnsta kosti“ fram á laugardag „og óþarfi að hafa mörg orð um það mynstur, enda höfum fengið fjölmörg sýnidæmi að undanförnu,“ eins og veðurfræðingur kemst að orði. Hitinn verður einnig sambærilegur, á bilinu 10 til 20 stig og hlýjast á Austurlandi. Engin gul viðvörun er í gildi fyrir daginn í dag en víða var nokkuð hvasst á landinu í gærkvöldi og nótt.

Eitthvað virðist þó hylla undir breytta tíma þegar helgin rennur sitt skeið. Langtímaspár gera ráð fyrir að lægðabraut síðustu vikna verði sunnar í Atlantshafi í næstu viku. Það myndi hafa í för með sér austlægar áttir og allt annað veðurfar.

Sjá einnig: Líkur á sól og hlýindum á vestanverðu landinu í næstu viku

„Betra veður fyrir sólarþyrsta íbúa á vestanverðu landinu, en síðra veður fyrir austan. Enn er þó nokkuð óljóst hvernig þetta mun allt saman spilast og því skal væntingum haldið í skefjum enn um sinn,“ segir veðurfræðingur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Suðlæg átt, 8-15 m/s, en hægari vindur austanlands fram eftir degi. Úrkomulítið norðaustantil, annars víða rigning. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á norðausturhorninu.

Á fimmtudag:
Suðvestlæg átt, 5-10 m/s. Skýjað en úrkomulítið á vestanverðu landinu og hiti 8 til 13 stig. Víða bjartviðri austanlands og hiti allt að 22 stigum.

Á föstudag:
Gengur í suðaustan 8-13 m/s með rigningu, en yfirleitt þurrt og bjart veður á Norður- og Austurlandi. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á laugardag:
Suðlæg átt og víða votviðri, en styttir upp norðanlands þegar líður á daginn. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag og mánudag:
Líkur á austlægri átt með vætu sunnan- og austanlands, en úrkomulítið í öðrum landshlutum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.