Lífið

Kramdi ljósmyndarinn fangaði króatísku klessuna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Yuri Cortez lét ekki tíu fullvaxta fótboltamenn stoppa sig.
Yuri Cortez lét ekki tíu fullvaxta fótboltamenn stoppa sig. Vísir/getty

Þegar framherji Króatíu, Mario Mandžukić, skoraði í framlengingu gegn Englendingum í undanúrslitum HM í gærkvöldi ætlaði skiljanlega allt um koll að keyra í herbúðum þeirra köflóttu.

Þeir vissu sem var að með marki Mandžukić, sem laumað hafði boltanum framhjá enska markmanninum Jordan Pickford eftir skalla frá hinum stórhættulega Ivan Perišić, voru þeir komnir með annan fótinn inn í úrslitaleikinn - en þangað hafði króatíska landsliðið aldrei komist áður.

Þeir gáfu því tilfinningunum lausan tauminn í fagnaðarlátunum og hrúguðust ofan á framherjann við endalínuna. Það fór ekki betur en svo að ljósmyndari AFP-fréttastofunnar, Yuri Cortez, kramdist undir hersingunni.

Sjá einnig: Mandzukic: Þetta er kraftaverk

Cortez, fagmaðurinn sem hann er, lét hrúguna þó ekki trufla sig og hélt áfram að smella myndum af kampakátum Króötum. Myndirnar hans má sjá hér að neðan. Eftir að fagnaðarlátunum linnti voru króatísku landsliðsmennirnir þó fljótir að biðja Cortez afsökunar og hjálpuðu honum aftur á fætur - rétt eins og þeir höfðu hjálpað honum að ná frábærum myndum.

Króatar mæta svo Frökkum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins, sem fram fer í Moskvu á sunnudag.

Hetjan Mario Mandžukić brosti sínu breiðast í þvögunni. Vísir/Getty
Mario Mandžukić rétti hinum kramda Cortez svo hjálparhönd. Króatískt gæðablóð. Vísir/getty

Tengdar fréttir

Kane: Mjög sárt en þeir spiluðu betur

Englendingar spila um bronsverðlaun á HM í Rússlandi eftir tap gegn Króötum í framlengdum undanúrslitaleik í Moskvu í kvöld. Fyrirliðinn Harry Kane sagði vonbrigðin mikil.

Mandzukic: Þetta er kraftaverk

Mario Mandzukic skoraði sigurmarkið gegn Englendingum í undanúrslitum HM í kvöld og kom Króötum í úrslitaleik HM í fyrsta skipti í sögunni. Hann sagði leikmennina ekki enn átta sig á því hvað þeir hefðu afrekað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.