Innlent

„Stál í stál“ í kjaradeilu ljósmæðra: Ótímabært að ræða lagasetningu að sögn ráðherra

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá samstöðufundi fyrir utan húsakynni ríkissáttasemjara í gær.
Frá samstöðufundi fyrir utan húsakynni ríkissáttasemjara í gær. Vísir/Hrund

Viðræður ríkissins og ljósmæðra eru stál í stál og enn ber of langt í milli til að grundvöllur sé fyrir miðlunartillögu að sögn ríkissáttasemjara. Heilbrigðisráðherra kveðst reiðubúinn að koma aftur að borðinu þegar samningur sé í sjónmáli en segir ótímabært að ræða íþyngjandi aðgerðir á borð við lagasetningu.

Líkt og kunnugt er orðið skilaði samningafundur ljósmæðra og ríkisins í gær engum árangri. Að óbreyttu mun ríkissáttasemjari boða til fundar í byrjun þarnæstu viku. „Það er því miður bara sama staðan og var uppi í gær, stál í stál ef við getum orðað það þannig,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.

„Ég mun boða fund innan hálfs mánaðar, að öllum líkindum í byrjun næstu viku ef að ekkert hefur breyst í millitíðinni.“

Fáir möguleikar virðist vera í stöðunni en lögum samkvæmt getur ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu hvenær sem er í samningaferlinu að höfðu samráði við samninganefndir. „Það eru hins vegar ekki uppi þær aðstæður núna sýnist mér að hægt sé að beita því úrræði einfaldlega vegna þess að það ber svo langt í milli aðila ennþá. Þannig að efni þeirrar miðlunartillögu er mjög ólíklega til þess fallið að það myndi leysa deiluna,“ segir Bryndís.
 

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. Vísir/skjáskot

Hún hafi bent deiluaðilum á að þetta úrræði sé til staðar en segir ólíklegt að beiting þess beri árangur á þessu stigi. 

„Ef við myndum vera nálægt því sem ljósmæður gera kröfu um þá er mjög líklegt að fjármálaráðherra eða samninganefnd ríkisins myndu fella tillöguna og ef við værum mjög nálægt því sem að samninganefnd ríkisins vill leggja í samninginn þá geri ég ráð fyrir að ljósmæður myndu fella hana.“

Ráðherra tilbúinn að liðka fyrir

Ljósmæður fara í heildina fram á 17-18% launahækkun en í því felst meðal annars krafa um 170 milljóna króna framlag frá ráðuneyti sem deilast myndi niður á níu heilbrigðisstofnanir og þaðan á allar ljósmæður sem starfa hjá ríkinu samkvæmt kjarasamningi. Aðspurð kveðst Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra reiðubúin að liðka fyrir á seinni stigum.

„Samninganefnd ríkisins fer með umboðið fyrir hönd ríkisins. En það sem ég hef sagt er það að ég er tilbúin að koma að borðinu þegar samningar eru að nást til þess að liðka fyrir og það hef ég gert einu sinni með 60 milljónum og það er ég tilbúin að gera aftur þegar að samningar eru að nást. En ég er ekki aðili að samningunum sem slíkum þannig að ég kem ekki með stórar eða smáar summur inn að samningaborðinu vegna þess að ég á þar ekki sæti,“ segir Svandís.

Þá komi ekki til greina að svo stöddu ræða íþyngjandi aðgerðir á borð við lagasetningu. „Mér finnst það ótímabært að ræða það ennþá og mér finnst að aðilar eigi að reyna í lengstu lög að ná saman og ég er þeirrar skoðunar alveg jafn mikið í dag og ég var í gær,“ segir Svandís. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/vilhelm

Tengdar fréttir

Segir ljósmæður hafa lagt fram sínar lokakröfur sem þær munu ekki hvika frá

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir að þær kröfur sem ljósmæður hafi sett fram á síðasta fundi með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara í liðinni viku séu lægstu kröfur þeirra. Þær séu komnar að sársaukamörkum og muni ekki skrifa undir neitt lægra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.