Innlent

Lögðu hald á fjölda kannabisplantna og skotvopn í Sandgerði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Plönturnar voru gerðar upptækar.
Plönturnar voru gerðar upptækar. Vísir/Stefán
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýverið stórfellda kannabisræktun í heimahúsi í Sandgerði, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Í tilkynningu segir að lögreglumenn í hefðbundnu eftirliti hafi orðið varir við megna kannabislykt og við athugun kom í ljós að umfangsmikil kannabisræktun stóð yfir í húsinu. Lagði lögregla hald á vel á annað hundrað kannabisplöntur, græðlinga, fjármuni sem og skotvopn.

Tveir menn hafa verið handteknir og yfirheyrðir vegna málsins en rannsókn stendur enn yfir.

Þá var gerð húsleit á heimili ökumanns á þrítugsaldri sem stöðvaður var í nótt vegna gruns um fíkniefnaakstur. Þar fundust meint fíkniefni, amfetamín, kókaín og sterar á víð og dreif í húsnæðinu. Hnífur og loftbyssa fundust einnig við húsleitina.

Lögregla minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×