Lífið

Sleit krossband og vann svo Grímuna fyrir dans nokkrum mánuðum síðar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þyri Huld Árnadóttir náði ótrúlegum bata eftir erfið meiðsli með jákvætt hugarfar að vopni.
Þyri Huld Árnadóttir náði ótrúlegum bata eftir erfið meiðsli með jákvætt hugarfar að vopni. Úr einkasafni
„Ég ákvað aldrei að verða dansari, þetta bara einhvern veginn gerðist,“ segir Þyri Huld Árnadóttir dansari hjá Íslenska dansflokknum. Hún ætlaði alltaf að verða fatahönnuður en örlögin gripu inn í og er hún dansari í dag.

„Í menntaskóla var ég alltaf í dansinum með. Svo eftir menntaskólann vildi ég læra áframhaldandi dans og fór í Listaháskólann. Eftir það komst ég í starfsnám hjá dansflokknum og fékk svo strax vinnu hjá dansflokknum eftir Listaháskólann.“

Þyri Huld er A-manneskja út í gegn, hjólar allt sem hún fer, spírar matinn heima hjá sér og dreymir um að ná að eiga alveg plastlausan lífsstíl. Hún vann Grímuna á dögunum fyrir dansara ársins, aðeins ári eftir að hún meiddist alvarlega á æfingu fyrir barnaverkið Óður og Flexa.

„Ég var nýkomin frá Bandaríkjunum, ég veit ekki hvort að ég náði að hvíla mig nógu vel eða hvað það var. Ég gerði stórt stökk og lenti illa, ég var í strigaskóm og heyrði bara smell í hnénu og datt í gólfið.“

Hún var send til sjúkraþjálfara sem kannaði hvort eitthvað væri slitið en lítið kom út úr þeirri skoðun.

„Ég ákvað því bara að „teipa“ á mér fótinn og ætlaði bara að sýna og fara svo til Danmerkur og sýna annað verk þar.“ Bróðir hennar hvatti hana þó til að fara til læknis áður. Þyri fór og hitti Örnólf bæklunarlækni og fékk þá slæmu fréttirnar.

„Hann eiginlega bara horfði á hnéð á mér og sagði: Ég held að þú sért búin að slíta krossbandið. Þú ert ekki að fara að dansa í ár.“

Þyri í verkinu Hinir lánsömuÚr einkasafni

Pilates hjálpaði í bataferlinu

Hugarfar Þyri Huldar gagnvart meiðslunum átti eftir að hjálpa henni mikið í bataferlinu.

„Þetta var náttúrulega algjört sjokk. En eiginlega strax frá byrjun þá ákvað ég að þetta væri bara verkefni sem ég þyrfti að leysa. Þetta getur nefnilega tekið á sálina að geta ekki gert neitt, að geta ekki hreyft sig. Ég ákvað bara að finna mér önnur verkefni og vita að ég kæmi sterkari til baka eftir þetta. Það var eiginlega bara svona Pollýönnuleikur.“

Þyri Huld segir að næsta ár hafi snúist um meiðslin og nánast ekkert annað.

„Það liðu nokkrir mánuðir frá því að ég vissi að ég væri slitin þangað til ég fór í aðgerðina. Þá var ég bara að undirbúa mig, gera æfingar fyrir aðgerðina svo fóturinn væri í toppstandi áður. Ég fór „all in“ í það og vöðvarnir voru orðnir risastórir.“

Hún varð aldrei hrædd um að dansferillinn væri í húfi og var alveg ákveðin í að gefast ekki upp.

„Maður þarf að vera duglegur og maður þarf að gera mikið af æfingum til þess að komast aftur til baka.“



Var ekki að nota rassvöðvana rétt

Þyri Huld segir að batinn sé hundrað prósent undir manni sjálfum kominn en það hafi líka hjálpað sér að hafa frábæran stuðning í kringum sig og góðan sjúkraþjálfara, Gauta Grétars.

„Ég fór líka mikið í pilates og er enn að æfa það einu sinni í viku.“

Hún mætti samviskusamlega í einkatíma í pilates hjá Auði Danielsdóttur þar sem notuð eru ákveðin tæki og hægt er að einangra og vinna mjög nákvæmt með ákveðna vöðvahópa. Hugsanlega ætlar hún einn daginn að fara í nám sjálf til að verða pilates kennari.

„Það hefur hjálpað mér líka með það að labba rétt. Það var alls konar sem ég var að gera vitlaust, sem að ég fattaði í pilates. Ég var til dæmis ekki að nota rassvöðvana rétt.“

Þyri Huld segir að í Bandaríkjunum hafi verið pilates bekkir hjá öllum sjúkraþjálfurum. Hér á landi er ekki eins algengt að fólk noti pilates í bataferlinu, en hún segir að þetta geti hjálpað öllum, ekki bara dönsurum.

Flutti aftur í foreldrahús

Þyri Huld fór í aðgerð 23. janúar á síðasta ári og byrjaði svo að æfa aftur dans um haustið. Fyrsta frumsýningin hennar var svo í lok desember, rúmu ári eftir að hún meiddist á æfingu.

„Það var svakalegt að upplifa það eftir aðgerðina að geta ekki gengið. Ég bý í risíbúð og það var ekki séns fyrir mig að komast þangað. Ég þurfti því að vera hjá mömmu og pabba. Kærastinn minn var í námi í New York svo ég var bara ein.“

Hún hafði mikla rútínu á öllu eftir aðgerðina. Á klukkutíma fresti gerði hún ákveðnar æfingar og allt var vel skipulagt.

„Ég var líka búin að lesa mér mikið til um ýmis fræði varðandi mat sem að passar að bólgur myndist ekki í líkamanum, sem að flýta fyrir batanum og sem að láta bandið vaxa betur saman. Ég sökkti mér í þetta enda er ég svona allt eða ekkert týpa.“

Þyri Huld var í endurhæfingu og sjúkraþjálfun hér á landi í fimm mánuði eftir aðgerðina og fór svo til New York til kærastans.

„Ég tók restina af batanum þar og var í sambandi við sjúkraþjálfarann minn um það hvað ég ætti að gera og hvað ekki.“

Hún viðurkennir að það hafi verið erfitt að stoppa og passa að fara ekki of hratt af stað. En hefði hún gert það hefði það aukið líkur á frekari meiðslum eða lengra bataferli.

Heiður að fá Grímuna

Að slíta krossband eru alvarleg meiðsli og þau fyrstu fyrir Þyri Huld, sem hefur aldrei meiðst á sínum dansferli. Hún segir að þó að hún hafi verið bjartsýn og ákveðin í að koma sterkari til baka eftir endurhæfingu, hafi það komið innilega á óvart að vinna Grímuna svona skömmu eftir meiðslin.

„Ég vissi að ég gæti komið sterkari til baka af því að þarna hafði ég tækifæri til þess að vinna bara í líkamanum, byggja hann upp. Það var ekkert annað sem ég þurfti að gera. Ég var alltaf ákveðin í að koma sterkari til baka, þetta var bara svona staðfesting á því.“

Þyri Huld segir að það hafi verið mikill heiður að fá tilnefninguna til Grímunnar.

„Þetta eru allt svo sterkir einstaklingar og dansarar. Það er bara nóg að fá tilnefninguna með þessum hópi. Að fá grímuna sjálfa er bara svakalegur heiður og segir manni að maður sé að gera eitthvað rétt.“

Þurfa áfengi til að þora að dansa

Hún segir að dansinn sé oft mjög vanmetinn. Einnig vantar meiri fjölmiðlaumfjöllun um dansverk, dansara og danstengda viðburði hér á landi.

„Fólk þorir oft ekki að fara á danssýningar af því að það heldur að þetta sé eitthvað sem það skilur ekki. Sem er svo skrítið af því að þetta er bara hreyfing sem að við gerum öll frá því að við fæðumst.

Börn eru alltaf að dansa, frá því að þau eru lítil. Hreyfing er svo stór partur af okkur svo það er skrítið hvað þetta form verður alltaf einhvern vegin fyrir utan.“

Þyri Huld telur að ástæða þess að svo margir fari ekki á danssýningar, sé einfaldlega sú að dansinn sé ekki stór hluti menningunni hér á landi.

„Margir eru með þjóðdansa og danshefðir inni í menningunni. Við erum hrædd við að dansa, margir dansa ekki án þess að vera búnir að fá sér að drekka, þurfa að fá sér áfengi til að dansa. Í mörgum löndum er það þannig að ef það er komið saman þá er bara dansað. Það þarf ekki að vera í partýi, bara úti á götu eða hvar sem er.“

Á ferðalagi sínu um Suður-Ameríku varð hún mjög oft vitni að því þegar fólk dansaði á kvöldin á götum úti. Þyri Huld telur að Íslendingar séu líka oft hræddir við að prófa eitthvað nýtt.

„Fólk fer í leikhús til að sjá leikhús en það er kannski eitthvað annað að fara í leikhús og sjá dans, það heldur kannski að það skilji ekki. En það er svolítið þannig með dansinn að maður þarf stundum ekki að skilja. Þetta er bara að horfa á þessa líkama, upplifa þá tjá eitthvað í gegnum hreyfingu.“

Dansflokkurinn eins og fjölskylda

Þyri Huld segir að fólk átti sig ekki endilega á því hvað það er mikil vinna að vera atvinnudansari. Þegar hún segir fólki að hún sé dansari hjá Íslenska dansflokknum fær hún reglulega spurninguna „Hvað gerir þú annað?“ eins og hún eigi að vera að gera eitthvað meira.

„Þetta er náttúrulega bara níu til fjögur vinna og svo setjum við líka upp sýningar. Það sem fólk veit ekki er að við ferðumst mikið erlendis og erum að sýna á stórum hátíðum um allan heim. Við erum að fá svaka góða dóma og mikla umfjöllun þar. En enginn talar um það hér heima að við höfum verið að sýna í einu stærsta leikhúsi í Englandi.“

Hún segir að á Norðurlöndunum sé þetta öðruvísi og þar fær dansinn meiri athygli og fullt er út úr dyrum á danssýningum. Hún íhugar þó ekki að flytja erlendis til að dansa.

„Það er eitthvað við dansinn á Íslandi og að vera í dansflokknum, þetta er eitthvað svo mikil fjölskylda. Fólk vill mjög mikið koma hingað og semja fyrir dansflokkinn þannig að við höfum verið að fá mikið af skemmtilegum nöfnum til að semja fyrir okkur.“



Forréttindi að fá að setja upp eigin verk

Þyri Huld segir að dansararnir fái líka mikil tækifæri þar sem flokkurinn er svo smár, en í stærri flokkum erlendis þarftu að fara í inntökupróf til að vera valin í verkefni.

„Þegar við förum út að sýna sjáum við að fólki finnst áhugavert það sem við erum að gera. Við erum með annan stíl, annað yfirbragð á því sem við erum að gera.“

Aðspurð um hvaða verkefni séu í uppáhaldi hjá henni, svarar Þyri Huld að sýningin Á vit, sem Íslenski dansflokkurinn sýndi með GusGus sé þar ofarlega á lista. Dansarar flokksins sáu sjálfir um að semja öll spor og setja saman sýninguna og var útkoman ótrúlega flott.

„En öll verkefni hafa eitthvað. Svo hef ég líka verið að gera sjálf, er búin að semja tvö verk fyrir dansflokkinn, barnaverk sem heita Óður og Flexa. Það eru líka forréttindi að fá það tækifæri.“

Þyri Huld er nú komin í sumarfrí og stefnir hún á að opna sína eigin heimasíðu í fríinu.

„Svo að það sé auðveldara fyrir fólk að nálgast uppskriftirnar. Ég ætla að skrifa ýmsan fróðleik tengt mataræði og heilbrigðum lífsstíl. Af því að mér fannst það hjálpa mér svo mikið í gegnum þetta allt. Eins og til dæmis öndunaræfingar og að finna þessa ró í líkamanum.“

Um miðjan ágúst byrjar dansflokkurinn svo að æfa aftur og taka þá við ný verkefni.

„Við setjum aftur upp barnaverkið sem ég gerði, Óður og Flexa. Þannig að það verður stuð að setja það upp aftur.“

Mikilvægt að passa meltinguna

Þyri Huld hélt upp á þrítugsafmælið í New York á meðan hún var að kljást við meiðslin. Í þrítugsafmælisgjöf gaf hún sjálfri sér námskeið í Puerto Rico hjá Ann Wigmore.

„Hún er svona höfuðið á þessu „living foods“ mataræði sem er lifandi fæði. Ég hafði heyrt af þessu frá pilateskennaranum mínum og öðrum í kringum mig. Allur maturinn sem þú borðar er lifandi, eins og spírur og spíraður matur.“

Þyri Huld segir að fólk þurfi ensími til að melta og til að byggja upp líkamann en það gleymist oft.

„Við borðum þá kannski bara mat sem er ekki ríkur af ensímum þannig að við eyðum bara öllum ensímunum sem eru í líkamanum okkar. Sem endar svo á því að við eigum bara erfitt með að melta matinn út af því að líkaminn hefur ekki tækin sem hann þarf til að melta. Þetta snýst eiginlega allt um þetta, mat sem er auðvelt að melta.“

Námskeiðið var tvær vikur og Þyri Huld segir að hún hafi lært gríðarlega mikið á þessum tíma, eins og að spíra mat og útbúa rejuvilac drykkinn sem hún fær sér alla morgna til að smyrja líkamann.

„Ég fékk uppljómun þarna um það hvað mataræðið skiptir miklu máli til þess að láta manni líða vel. Ég finn að það eru engar bólgur í líkamanum á mér. Ég finn að allir liðir og öll melting er í topp standi.“

Spírar matinn heima hjá sér

Þyri Huld segir að þetta mataræði hafi gefið henni aukna orku og meiri lífsgleði. Nú spírar hún og ræktar matinn sinn heima hjá sér.

„Eftir að ég byrjaði á þessu fer ég eiginlega bara út í búð til þess að kaupa avocado. Það er svo miklu minna sem ég kaupi því ég geri allar spírurnar. Það er mjög mikill sparnaður í þessu.“

Hún er vegan og borðar því ekki dýraafurðir eða mjólkurvörur.

„Núna er 90 prósent af mataræðinu mínu „raw“ þannig að ég elda ekki mikið. Það sem ég elda er eiginlega bara sætar kartöflur og svo þegar ég bý mér til pönnukökur á sunnudögum. Annars er mest allt spírað.“

Þyri Huld er dugleg að sýna frá þessu mataræði sínu á Instagram og deila með fólki sniðugum uppskriftum.

„Þetta er ekkert mál ef manni langar til að gera þetta.“

Hún segir að í fullkomnum heimi væru allir að rækta mat heima hjá sér, uppi á þaki eða í garðinum.

Borðar súrkál á hverjum degi

„Ég byrja alltaf morguninn á því að fá mér vatnsglas með risastórri sítrónu út í. Svo eftir það geri ég öndunaræfingar, ég lærði það eftir meiðslin að það skiptir sjúklega miklu máli fyrir mig til að ná jafnvægi. Svo fæ ég mér alltaf hveitigras, eitt staup af því.“

Eftir upphitunaræfingar í vinnunni fær Þyri Huld sér rejuvilac drykk. Hún fastar til hádegis og borðar ekkert fyrir utan það að drekka vatn, hveitigras og rejuvilac.

„Ég finn að líkaminn hefur þá tíma til að melta og koma sér í gang. Í hádeginu fæ ég mér svo alltaf stóra máltíð. Það er yfirleitt alveg fullt af mismunandi spírum, kál, stórt avocado, hummus, sólþurrkaðir tómatar, basil og fleira. Þá oft líka eitthvað kex sem ég hef gert með hummusnum. Svo alltaf tvær stórar skeiðar af súrkáli.“

Í vinnunni borðar Þyri Huld svo yfirleitt hnetur og ávexti.

„Þegar ég kem heim borða ég svo það sem margir fá sér í morgunmat, einhvern kaldan graut eða kókosjógúrt með berjum. Á kvöldin þá er ég mjög oft að fá mér kókosvefjur og set allskonar tahini sósu og grænmeti. Svo alltaf tvær matskeiðar af súrkáli, því það er fullt af ensímum sem hjálpa okkur að melta.“

Um helgar býr hún svo til pönnukökur og ýmislegt hráfæðisnammi til þess að breyta aðeins til.

„Þannig að þetta er ekkert leiðinlegt þó að þetta hljómi kannski þannig.“

Þyri Huld lætur sig dreyma um að opna stað einn daginn þar sem hún geti selt múslíið og fleira sem hún er að gera.



Áhugasamir geta fylgst með Þyri Huld á Instagram


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×