Innlent

Unglingarnir sækja annað en í Vinnuskólann

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar

1850 nemendur eru skráðir í Vinnuskóla Reykjavíkur en þeim gæti fjölgað á næstu vikum. 29% krakka úr tíunda bekk eru í Vinnuskólanum, 49% nemenda úr níunda bekk og 57% nemenda úr áttunda bekk en þeim býðst starf hjá Vinnuskólanum aftur eftir átta ára hlé.

„Aðsóknin hefur sveiflast eftir almennu atvinnuástandi. Skráningin í ár og síðustu tvö ár er sambærileg við árin 2006, 2007," segir Magnús Arnar Sveinbjörnsson, skólastjóri Vinnuskóla Reykjavík.

Árið 2009, eftir hrun, voru aftur á móti þrír fjórðu allra nemenda skráðir í Vinnuskólann. Í dag fá unglingar hins vegar frekar störf í verslunum og við hin ýmsu þjónustustörf.

„Maður heyrir líka meira af því að krakkarnir séu að vinna hvoru tveggja, vinni hjá okkur og fari svo í annað starf seinnipartinn og um helgar," segir Magnús.

Krakkarnir sem voru að vinna í Hljómskálagarðinum við að hreinsa beðin sögðu gott að vinna í ferska loftinu þótt það sé ekki alltaf mjög gaman í Vinnuskólanum. Þau segja foreldra sína hafa hvatt þau til að sækja um enda hafi þau ekki haft aðra sumarvinnu. Aðrir unglingar fái vinnu í gegnum klíku. 

„Foreldrar þeirra þekkja einhverja sem geta reddað þeim vinnu, eða þeir eru jafnvel ekki í neinni vinnu," segir Marteinn Rastrick, nemandi í Vinnuskóla Reykjavíkur. 

Hringur E. Hafstein bætir við að unglingar þurfi ekki endilega að vinna. „Krakkar á okkar aldri þurfa ekkert pening," segir hann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.