Erlent

Frambjóðandi skotinn í höfuðið þegar hann stillti sér upp fyrir sjálfu með kjósanda

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Skálmöld hefur ríkt í Mexíkó í meira en áratug eða frá því að yfirvöld skáru upp herör gegn fíkniefnasmyglurum sem brugðust við með skæruhernaði.
Skálmöld hefur ríkt í Mexíkó í meira en áratug eða frá því að yfirvöld skáru upp herör gegn fíkniefnasmyglurum sem brugðust við með skæruhernaði. Vísir/Getty
112 stjórnmálamenn hafa nú verið myrtir í Mexíkó í aðdraganda kosninga sem fara fram fyrsta næsta mánaðar. Nýjasta morðið átti sér stað í borginni Piedras Negras, skammt frá landamærunum við Bandaríkin, hvar þingframbjóðandi var skotinn í höfuðið um leið og hann stillti sér upp til að taka sjálfu með kjósanda.

Frambjóðandinn, Pernando Purón, hafði nýlokið við að flytja ræðu þar sem hann lofaði umbótum í öryggismálum og hertri löggæslu. Þegar hann steig af sviðinu mætti honum aðdáandi sem vildi fá mynd af sér með Purón.

Sjónarvottar segja að þegar Purón stillti sér upp fyrir myndatökuna hafi skeggjaður maður komið aftan að honum með skammbyssu og skotið hann í hnakkann. Morðinginn lét sig hverfa í glundroðanum sem fylgdi í kjölfarið.

Glæpagengi ráða lögum og lofum á stórum svæðum í Mexíkó, ekki síst við landamæri Bandaríkjanna. Það er eftirspurnin eftir kókaíni og öðrum fíkniefnum í Bandaríkjunum sem elur og nærir blóðugt stríð í Mexíkó um yfirráð yfir smyglinu.

Morðalda hefur gengið yfir landið frá því 2006. Allt að hundrað þúsund hafa fallið í átökunum og enginn er óhultur, hvorki dómarar og lögregla né stjórnmálamenn og fréttamenn.

Bara í fyrra voru meira en 23 þúsund myrtir í Mexíkó og komandi kosningar snúast að miklu leyti um hvernig hægt sé að stöðva blóðbaðið. Tollastríðið við Trump stjórnina í Bandaríkjunum er þó einnig ofarlega á baugi.

Kosnið verður til þings, forseta og svæðis- og borgarstjórna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×