Innlent

Reka Iðnó án rekstrarleyfis

Gunnþórunn Jónsdóttir skrifar
Skellt var í lás í dag eftir að Fréttablaðið hafði samband við Iðnó.
Skellt var í lás í dag eftir að Fréttablaðið hafði samband við Iðnó. Vísir/Sigtryggur
Iðnó í Reykjavík er rekið án rekstrarleyfis samkvæmt sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar Fréttablaðið hafði samband við René Boonekamp, rekstraraðila Iðnó, sagði hann að málið væri byggt á misskilningi og að staðurinn væri rekinn á bráðabirgðaleyfi þar til rekstrarleyfi væri í höfn. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni rann umrætt leyfi út þann 16. janúar síðastliðinn.

Forsaga málsins er sú að sýslumanni barst umsókn um nýtt rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki þrjú þann 20. september 2017 og fór umsóknin í lögbundið umsagnarferli. Neikvæðar umsagnir bárust þá frá skrifstofu borgarstjórnar þess efnis að öryggis- og lokaúttekt staðarins lægi ekki fyrir.

Sjá einnig: Þurftu að bregðast skjótt við eftir að löggan skellti í lás í Iðnó

Samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er leyfisveitanda óheimilt að gefa út rekstrarleyfi ef einhver lögbundinna umsagnaraðila leggst gegn útgáfu þess. Umsókninni var því formlega synjað þann 18. maí síðastliðinn.

Lögregla mætti á samkomu í Iðnó á fimmtudag í síðustu viku og lokaði staðnum. Í kjölfarið var sótt um rekstrarleyfi að nýju daginn eftir, þann 25. maí, en umsóknin er nú í umsóknarferli. Hvorki hefur verið gefið út rekstrarleyfi né bráðabirgðaleyfi vegna starfseminnar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hins vegar samkvæmi í húsinu bæði föstudags- og laugardagskvöld.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×