Innlent

Forstjóri Landspítalans: Óhætt að segja að það sé uggur og urgur í hópi ljósmæðra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í ágúst. Yfir 20 ljósmæður hafa sagt upp störfum á Landspítalanum en forstjóri spítalans hvetur samningsaðila til að ná sáttum.
Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í ágúst. Yfir 20 ljósmæður hafa sagt upp störfum á Landspítalanum en forstjóri spítalans hvetur samningsaðila til að ná sáttum. vísir/vilhelm
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, gerir kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins að umræðu í vikulegum forstjórapistli sínum í dag eins og oft áður undanfarnar vikur. Enn á ný hvetur hann samningsaðila til sátta en Landspítalinn er ekki aðili að deilunni.

Páll fundaði með ljósmæðrum í vikunni og segir í pistlinum að spítalinn taki undir með heilbrigðisráðherra sem styður ljósmæður í kjarabaráttunni.

„Það er ýmislegt sem spítalinn getur gert og lýtur að vinnuumhverfi og aðstæðum ljósmæðra og áttum við góðar samræður um það á fundinum.  Því miður er það þó svo að óhætt er að segja að bæði sé uggur og urgur í hópi þessa mikilvægu starfsstéttar. Annars vegar hefur á þriðja tug þeirra sagt upp störfum og ef þær uppsagnir koma til framkvæmda mun meginþorri þeirra gera það á háannatíma hér á spítalanum. Hins vegar er ljóst að ekki er gróið um heilt frá síðustu kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins. Ég vil enn og aftur hvetja samningsaðila til að ná sáttum hið allra fyrsta.  Hver dagur í þessari óvissu er öllum þungbær og því eru fréttir af því að til land sjáist í deilunni afskaplega ánægjulegar,“ segir Páll.

Hann vísar í fréttir í dag þess efnis að það sjái til lands í deilunni að því er Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag.

Samninganefndirnar héldu óformlegan vinnudag í fyrradag og munu hittast á ný á mánudag en næsti formlegi fundur hjá ríkissáttasemjara verður næstkomandi miðvikudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×