Innlent

Formaður samninganefndar ljósmæðra bjartsýnn á framhald kjaraviðræðna

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Formaður samninganefndar ljósmæðra fagnar auknum samningsvilja af hálfu samninganefndar ríkisins en nefndirnar hittust í dag.

Kjaradeila Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins hefur nú staðið í rúma þrjá mánuði. Samninganefndir ljósmæðra og ríkisins hittust á mánudag og í dag var haldinn vinnufundur í deilunni. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, er bjartsýn eftir fundinn.

„Það er alla vega aukið tilefni til að vera bjartsýn. Það er alla vega komið af stað eitthvað samtal og farið að tala í lausnum sem við fögnum mjög,“ segir Katrín Sif.

Katrín Sif segir að ljósmæður séu að krefjast sömu grunnlauna og sambærilegar stéttir séu að fá.

Hún segir að komið hafi á óvart hversu lengi alvöru viðræður hafi verið að fara í gang.

„Við mættum á fundi eiginlega bara til að geta sagst hafa mætt. Það var ekkert samtal og maður upplifði  að það var ekkert svigrúm til samningaviðræðna. En síðustu tvö til þrjú skipti er maður að upplifa meira samtal sem við fögnum svo sannarlega,“ segir Katrín Sif.

Næsti fundur í kjaradeilunni er boðaður á mánudaginn. Katrín Sif er vongóð um framhaldið.

„Ég er alveg sannfærð um að við höfum farið fram með réttlátar kröfur og trúi því í hjarta mínu að réttlætið sigri að lokum,“ segir Katrín Sif að endingu.

Uppfært klukkan 20:05: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt og fréttin uppfærð þar sem formaður samninganefndar ljósmæðra hafði samband og sagðist hafa misskilið spurningu fréttamanns varðandi það hvort ljósmæður væru að fara fram á 650 þúsund krónur grunnlaun, eins og fram kom í upphaflegri útgáfu fréttarinnar.

650 þúsund krónur væru ekki þau grunnlaun sem ljósmæður væru að fara fram á í kjaradeilunni nú. Aðspurð vildi Katrín ekki gefa upp nákvæmlega hvað ljósmæður eru að fara fram á í grunnlaun. 



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×