Innlent

Hafna brigslum um siðgæðisbrest og halda kosningaplakötum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
„Merkingar á gluggum og verslunarrýmum geta ekki fallið undir verksvið bæjarráðs, þrátt fyrir þá staðreynd að bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar séu hýstar í umræddu húsi,“ segir í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks í bæjarráði Mosfellsbæjar. Þeir höfnuðu í gær kröfu fulltrúa minnihlutaflokkanna um að fjarlægja kosningaauglýsingar úr gluggum Kjarnans þar sem bæjarskrifstofurnar eru til húsa.

„Á Íslandi, eins og í öðrum lýðræðisríkjum, er grundvallarregla að hengja ekki upp kosningaráróður á og í opinberum byggingum,“ segir í greinargerð fulltrúa Íbúahreyfingarinnar sem lagði til að bæjarráðið leitaði „eftir því við fulltrúa D-lista að þeir fjarlægi kosningaáróður sinn úr gluggum Kjarnans og af vegg við innganginn að bæjarskrifstofunni“.

Bókaði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar síðan að auglýsingarnar vektu „alvarlegar spurningar um siðferði í stjórnmálum“.

Tillagan var felld með tveimur atkvæðum. Fulltrúi Samfylkingar sat hjá en sagði auglýsingarnar „til vansa“ og „óviðeigandi“ eins og segir í bókun. Merkingarnar væru ekki á skrifstofu framboðsins sjálfs. „Þessir sömu gluggar hafa verið notaðir til auglýsinga af öðrum stjórnmálaflokkum áður sem hafa þá haft skrifstofu á þeim stað.“

Sjálfstæðismenn sögðu að bæði B-listi og V-listi hefðu auglýst í sömu gluggum fyrir kosningar 2014. „Vísum fullyrðingum um siðgæði á bug, enda hér um eðlilegan hluta kosningabaráttu að ræða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×