Innlent

Neitaði að borga leigubílinn og veittist að lögreglumönnum

Þórdís Valsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sat ekki auðum höndum í gærkvöld og nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sat ekki auðum höndum í gærkvöld og nótt. Vísir/Vilhelm
Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu rétt fyrir klukkan þrjú í nótt því ölvuð kona neitaði að greiða fargjaldið. Konan brást illa við afskiptum lögreglu og sló og sparkaði til lögreglumanna. Konan var í framhaldinu vistuð í fangageymslu.

Samtals voru 112 mál bókuð í kerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Nokkrar tilkynningar bárust um ofurölvi og ósjálfbjarga fólk í miðbænum og aðstoðaði lögreglan fólk við að komast í heimahús. Í einu tilviki reyndist það þó erfitt, en um var að ræða spænskan ferðamann sem gat engan veginn sagt hvar hann gisti. Lögreglan brá á það ráð að vista hann í fangageymslu þar til hann næði áttum.

Á níunda tímanum í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ónæðis og áreiti frá erlendum karlmanni. Þegar lögreglan hafði afskipti af manninum kom í ljós að hann hefur ekki landvistarleyfi og var hann því handtekinn og vistaður í fangageymslu. Mál hans verður tekið fyrir í dag.

Um hálf þrjú í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála við skemmtistað í miðbænum. Minniháttar áverkar voru á þeim sem í hlut áttu. Sá sem verst lét var handtekinn og vistaður í fangageymslu og við leit á lögreglustöð fundust á honum meint fíkniefni.

Tvítug stúlka óskaði eftir aðstoð lögreglu í Austurstræti laust fyrir klukkan þrjú í nótt en þá hafði önnur stúlka ráðist á hana og veitt henni áverka. Lögreglan telur sig vita hver gerandinn er.

Þá voru einnig þó nokkrir stöðvaðir af lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×