Innlent

Lögregla kölluð til vegna ölvaðs manns sem gekk berserksgang með tveggja tonna gröfu við heimili sitt

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn lagði á flótta neyddist lögreglan til að stöðva för hans sem varð til þess að bíllinn hans valt.
Maðurinn lagði á flótta neyddist lögreglan til að stöðva för hans sem varð til þess að bíllinn hans valt. Vísir/Eyþór
Lögreglan á Suðurlandi var kölluð til í Biskupstungum vegna ölvaðs manns sem þar gekk berserksgang með tveggja tonna gröfu við heimili sitt á sjöunda tímanum í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þar segir að á leið sinni á vettvang mættu lögreglumenn manninum á bíl og voru honum gefin stöðvunarmerki en þeim sinnti hann ekki heldur ók á undan lögreglu áleiðis eftir Skálholtsvegi og upp í Þjórsárdal.

Á Skálholtsvegi reyndu lögreglumenn að komast fram fyrir bifreið mannsins en hann þvingaði þá lögreglubifreiðina út fyrir veg. Í ljósi ástands mannsins, aksturslags og þeirrar almennu umferðar sem þarna á leið um ákváðu lögreglumennirnir að beita lögreglubifreið til að stöðva akstur mannsins. Það var gert á Þjórsárdalsvegi en við það valt bifreið hans.

Maðurinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslu á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var með meðvitund en nánari upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir. Þau eru þó ekki talin alvarleg. Lögreglumenn á vettvangi eru ómeiddir.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fengin til að aðstoða við rannsókn vettvangs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×