Innlent

Guðlaugur Þór fundaði með Mattis í Pentagon

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, funduðu í Washington í Bandaríkjunum í dag. Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggismálum og innan NATO var á meðal umræðuefna á fundi dagsins, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins.

„Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum á sér langa sögu og hefur þróast í áranna rás. Undanfarin ár hefur samstarf ríkjanna farið mjög vaxandi samhliða breyttu öryggisumhverfi í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi. Atlantshafstengslin eru mikilvægari nú sem aldrei fyrr og gagnkvæmar skuldbindingar Íslands og Bandaríkjanna standa óhaggaðar. Við fórum yfir mikilvægi samstöðu vestrænna ríkja sem deila sömu gildum í því breytilega öryggisumhverfi sem við búum við,“ segir Guðlaugur Þór.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslumál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins í sumar, þ.m.t. auknar áherslur á mikilvægi Norður-Atlantshafsins.

Einnig var loftrýmisgæsla og kafbátarleit og varnaræfingin Trident Juncture 2018 til umfjöllunar. Þá voru helstu viðfangsefni á alþjóðavettnvangi til umræðu, þ.m.t. málefni Miðausturlanda og staða mála á Gaza. Einnig voru málefni norðurslóða á meðal fundarefna.

Utanríkisráðherra átti einnig fundi með Dan Sullivan og Lisu Murkowski, öldungardeildaþingmönnum Alaska, þar sem fríverslun og fjárfestingar, sem og málefni norðurslóða og fyrirhuguð formennska Íslands í Norðurskautsráðinu á næsta ári voru til umræðu.

Frá fundi ráðherranna. Mynd/Stjórnarráðið


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.