Innlent

„Þessir menn voru orðnir mjög tæpir á jöklinum“

Jóhann K. Jóhannsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Á þessum myndum má sjá þegar öðrum mannanna er bjargað í nótt en þeir grófu sig í fönn þar sem þeir voru í tæpa tólf klukkutíma.
Á þessum myndum má sjá þegar öðrum mannanna er bjargað í nótt en þeir grófu sig í fönn þar sem þeir voru í tæpa tólf klukkutíma. björgunarfélag hornafjarðar

Friðrik Jónas Friðriksson sem stjórnaði björgunaraðgerðum á Vatnajökli í gær og í nótt segir að mennirnir tveir sem týndust á jöklinum hafi verið orðnir kaldir þegar þeir fundust. Annar þeirra var sérstaklega kaldur og máttfarinn eftir því en mennirnir eru frá Rúmeníu og vanir fjallaferðum.

Þeir lentu í snjóflóði á Grímsfjalli klukkan 16 í gærdag en snjóflóðahætta var á fjallinu, sérstaklega í bröttustu brekkum þess. Mennirnir týndu mikið af búnaði sínum í flóðinu. Eftir að hafa kveikt á neyðarsendi sem þeir höfðu meðferðis ákváðu þeir að grafa sig í fönn. Segir Friðrik að miðað við aðstæðurnar sem mennirnir voru í og því sem þeir höfðu lent í hafi þeir gert allt rétt.
 
„Það væsti ekki um þá hvað varðar vind og annað en þeir voru orðnir kaldir, sér í lagi annar þeirra. Hann gat varla setið á sleða þennan kílómeter upp í skála þannig að ég myndi segja það að þessir menn voru orðnir mjög tæpir á jöklinum,“ segir Friðrik spurður út í ástandið á mönnunum þegar þeir fundust upp úr klukkan þrjú í nótt. 

Björgunarmenn þurftu að bíða af sér slæmt veður á jöklinum. björgunarfélag hornafjarðar

Mjög slæmar aðstæður á jöklinum

Aðstæður á Vatnajökli voru mjög slæmar í nótt að hans sögn.

„Það var virkilega hvasst, mikil ofankoma framan af kvöldi en upp úr klukkan 1 í nótt þá sneri vindurinn sér og ofankoman skánaði mikið og hvarf upp úr klukkan 2. Þá var orðið vinnuhæft þarna í kringum Grímsfjall,“ segir Friðrik.

Hnan segir að ferðin hafi sóst vel en björgunarmennirnir þurftu þó að bíða af sér veðrið í Gímsvatnaskála í einn og hálfan tíma. Síðan hafi þeir farið aftur af stað til að leita að mönnunum.

Björgunarmenn náðu engu sambandi við mennina. Friðrik segir að vitað hafi verið að ekki myndi nást á þá þar til þeir myndu finnast þar sem þeir voru á stað þar sem ekkert samband er.

En hvernig var svo atburðarásin eftir að björgunarmennirnir fara af stað úr skálanum þegar veðrinu slotaði?

„Þeir eru svona rúman kílómeter frá skálanum þar sem þeir grafa sig í fönn. Það sem verður til þess að þeir finnast er að þegar veðrinu slotar að þá er hægt að fara að leita í kringum þessa punkta sem við vorum með frá neyðarsendinum og fljótlega eftir það þá finnst mjög stórt snjóflóð og menn fara að hafa áhyggjur af því. Þegar menn fara að leita þar í kring þá finna menn sem sagt aðra snjóþotuna sem þeir höfðu borið með sér. Þá fóru menn upp í skála og tilkynntu að þetta væri fundið og hvort það væri ekki örugglega meiri mannskapur á leiðinni til að tryggja það. Þá vorum við í rauninni búin að kalla út alla sleðamenn og fjallamenn frá Reykjvík til Vopnafjarðar,“ segir Friðrik.

Mennirnir eru vanir fjallaferðum og höfðu björgunarmenn punkta sem þeir unnu út frá. björgunarfélag hornafjarðar

Reyndu að komast upp í skála

Þegar mennirnir lenda í snjóflóðinu týna þeir bæði skíðum, stöfum og annarri þotunni. Þeir finna tvo bakpoka og eina púlku og ráða síðan ráðum sínum varðandi hvað sé best að gera.

„Þeir reyna að komast upp í skála en geta ekki dregið púlkuna á eftir sér. Þeir skilja hana eftir og ákveða þá að setja neyðarsendinn í gang og grafa sig niður.“

Eftir að mennirnir finnast var farið með þá í Grímsvatnaskála.

„Hann er þeim eiginleikum gæddur að hann er alltaf heitur. Þar var þeim kippt úr fötunum og klæddir í hlý og góð föt og svo þegar það var yfirstaðið þá voru bílarnir frá okkur komnir upp á Grímsfjall og þeir voru bara settir upp í bíl og við erum bara á leið heim með þeim,“ segir Friðrik en þegar fréttastofa náði tali af honum skömmu fyrir klukkan 10 í morgun voru um tveimar tímar þar til að hópurinn kæmi á Höfn í Hornafirði.

Eftir að mennirnir náðu ekki að komast í skálann ákváðu þeir að grafa sig í fönn. björgunarfélag hornafjarðar

150 manna aðgerð

Friðrik segir mennina hafa verið vana fjallaferðum.

„Þeir voru með gott skipulag sem þeir lögðu inn til Safe Travel og leigðu þar þennan neyðarsendi sem þeir voru með. Miðað við aðstæður og það í hverju þessir menn voru búnir að lenda þá segi ég það að þessir menn gerðu allt rétt.“

Var snjóflóðahætta á fjallinu fyrir?

„Já, það er snjóflóðahætta þarna sér í lagi í þessum brekkum sem eru brattastar við fjallið. Þeir svo sem lenda bara í að þeir lenda aðeins fram með fjallinu áður en þeir reyna að fara upp. Þeir fara upp á vitlausum stað og fá á sig þetta snjóflóð og þá náttúrulega bogna þeir en ákveða samt að halda áfram í þrjá tíma áður en þeir kveikja á neyðarsendinum,“ segir Friðrik.

Alls tóku um 150 manns þátt í þessari aðgerð en sótt var á jökulinn úr þremur áttum eins og alltaf er gert þegar alvarleg atvik koma upp þar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.