Innlent

Bar­áttu­dagur verka­lýðsins haldinn há­tíð­legur um land allt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Félagsmenn í VR undirbúa hér 1. maí í gærdag og græja nokkur mótmælaspjöld.
Félagsmenn í VR undirbúa hér 1. maí í gærdag og græja nokkur mótmælaspjöld. vísir/eyþór
Í dag er baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, haldinn hátíðlegur um land allt með sérstakri hátíðardagskrá.

Í Reykjavík verður safnast saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13 og svo lagt af stað í kröfugöngu klukkan 13:30 álieðist niður á Ingólfstorg þar sem útifundur hefst klukkan 14:10. Ræðumenn þar verða Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Í Hafnarfirði verða baráttutónleikar í Bæjarbíó klukkan 17 þar sem Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, flytur ávarp. Á meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum eru Bubbi Morthens og Ragnheiður Gröndal. 

Á Akranesi verður safnast saman við Kirkjubraut 40 klukkan 14 og farið í kröfugöngu. Að henni lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness þar sem formaðurinn, Vilhjálmur Birgisson, heldur ræðu.

Kröfuganga verður frá Alþýðuhúsinu á Ísafirði klukkan 14 og hátíðardagskrá verður að henni lokinni í Edinborgarhúsinu. Á Akureyri mun göngufólk safnast saman við Alþýðuhúsið klukkan 13:30 og leggur kröfugangan af stað klukkan 14. Hátíðardagskrá verður í Hofi.

Í Reykjanesbæ hefst hátíðardagskrá í Stapa klukkan 14 og á Selfossi hefst kröfuganga klukkan 11 frá Austurvegi 56 að Hótel Selfossi þar sem verður skemmtun í tilefni dagsins.

Hátíðardagskrá er í fleiri bæjarfélögum víða um land en allar nánari upplýsingar má nálgast á vef Alþýðusambandsins, asi.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×