Innlent

Umboðsmaður Alþingis hnýtir í Matvælastofnun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Dýralæknar þurfa að geta tjáð sig á íslensku.
Dýralæknar þurfa að geta tjáð sig á íslensku. Vísir/Stefán
Matvælastofnun var óheimilt að ráða til sín dýralækna sem ekki höfðu vald á íslensku. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanni Alþingis, sem birtist á vef embættisins í morgun.

Forsaga málsins er sú að Dýralæknafélag Íslands kvartaði til umboðsmanns yfir því að Matvælastofnun hefði um skeið ráðið til starfa dýralækna í eftirlitsstörf sem ekki hefðu vald á íslensku og þær skýrslur og athugasemdir sem þeir hefðu beint til eftirlitsskylda aðila hefðu verið á ensku.

Fram kemur í álitinu að Dýralæknafélagið hafi vísað til þess í kvörtun sinni að í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr væri gerð krafa um að dýralæknar sem störfuðu í opinberri þjónustu skyldu hafa vald á íslenskri tungu.

Umboðsmaður féllst á þessi sjónarmið og og beindi þeim tilmælum til Matvælastofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að gera ráðstafanir til að starfshættir Matvælastofnunar yrðu framvegis í samræmi við lagaákvæði sem gera kröfu um kunnáttu dýralækna í íslensku - sem og þá kröfu laga að íslenska væri mál stjórnsýslunnar hér á landi.

Embættið féllst hins vegar ekki á þau sjónarmið stofnunarinnar og ráðuneytisins að um neyðarráðstöfun hefði verið að ræða þar sem ekki hefði verið kostur á að ráða dýralækna sem hefðu vald á íslensku.

„Umboðsmaður tók fram að þar sem stjórnvöld hefðu ekki í málinu vísað til reglna um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði athugun hans ekki beinst að hugsanlegri þýðingu þeirra við ráðningu umræddra starfsmanna,“ segir jafnframt í álitinu sem nálgast má með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×