Lífið

„Eitthvað sem ég mun aldrei gleyma“

Stefán Árni Pálsson í Lissabon skrifar
„Mér líður alveg ótrúlega vel. Ég toppaði mig alltaf eftir hvern einsta flutning og ég gat ekki gert meira,“ segir Ari Ólafsson sem flutti lagið Our Choice í fyrri undanriðli keppninnar í Lissabon í kvöld og var ekki á meðal þeirra tíu laga sem komust áfram.

Er þetta fjórða árið í röð sem Ísland kemst ekki upp úr undanriðli og í úrslit.

„Hópurinn sem ég er með er yndislegur, algjörlega æðislegur og ég var betri í kvöld en í dómararennslinu í gær. Ég get farið heim sáttur og ég er það svo sannarlega. Þetta var ótrúlega gott kvöld.“

Ari segist hafa lært rosalega mikið á því að hafa tekið þátt.

„Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og mun hjálpa mér mikið í framtíðinni. Þetta er bara yndislegt.“

Hann segir að hópurinn sé ótrúlega samheldinn og góður.

„Þessi riðill var rosalega erfiður og þetta er til dæmis í fyrsta skipti þar sem Azerbaijan, Armenía og Grikkland fer ekki áfram. Aserar eru í fyrsta skipti að detta út í sögu Eurovision. Ef maður er að fara detta út, þá gerir maður það í svona riðli. Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld og ég hef aldrei skemmt mér eins vel. Ég hef aldrei fundið fyrir eins mikilli ást, og á þessu sviðið í kvöld.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×