Lífið

Ókeypis sálfræðitímar hjá ömmu

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Joey og Máni í ævintýralegum garðinum við ættaróðalið ásamt þeim Veru og Kristjóni en öll mótuðust þau í húsinu undir leiðsögn og góðum ráðum ömmu Jóhönnu.
Joey og Máni í ævintýralegum garðinum við ættaróðalið ásamt þeim Veru og Kristjóni en öll mótuðust þau í húsinu undir leiðsögn og góðum ráðum ömmu Jóhönnu. Vísir/Sigtryggur Ari
Máni Hrafnsson og Joey Chan eru þessi dægrin að koma sér fyrir í húsi ömmu hans við Drafnarstíg sem iðar af lífi eins og það gerði öll þau fimmtíu ár sem Jóhanna heitin Kristjónsdóttir hafði þar sínar höfuðstöðvar í lífsins leik og baráttu. Tvö yngri systkini Mána búa í húsinu ásamt ungu hjónunum auk þess sem þar valsa þrír kettir býsna drjúgir um. Tveir eru með lögheimili á Drafnarstígnum og fylgdu systkinum Mána, en sá þriðji er hústökuköttur sem hefur haslað sér völl í kjallaranum. Þau hafa gengið honum nafnið Stray, með vísan til þess að hér virðist alvöru flækingur vera á ferðinni.

„Mér datt reyndar ekki í hug að ég gæti gert þetta,“ segir Máni þegar hann er spurður að því hvernig það kom til að hann eignaðist ættaróðalið. „En síðan létum við bara reyna á þetta en þetta var allt mjög tæpt alltaf, alls staðar og það þurfti margt að ganga upp. En þetta hafðist,“ segir Máni sem er sonur Hrafns Jökulssonar og Elísabetar Ronaldsdóttur en hann hefur fetað í fótspor móður sinnar og lagt kvikmyndagerð fyrir sig.





Stofan á Drafnarstíg dregur enn dám af Jóhönnu og þarna sitja barnabörnin þar sem þau sóttu áður „sálfræðitíma“ hjá ömmu sinni. Vísir/Sigtryggur Ari
Vera, frænka hans, Illugadóttir og Guðrúnar Gísladóttur leikkonu segir tilfinninguna sem fylgi því að ömmuhúsið haldist innan fjölskyldunnar ákaflega notalega. „Sérstaklega vegna þess að þetta er svo sérstakt hús og um margt einkennandi fyrir ömmu. Það er gaman að vita að það sé búið í því og að það sé líf í því. Svo skaðar ekki að það sé innan fjölskyldunnar og maður getur fylgst með,“ segir hún og hlær.

„Það var alltaf eins og að koma í framandi heim þegar maður kom til ömmu. Hér var allt svo undarlegt og skrýtið. Framandi munir og svona. Mínar minningar úr þessu húsi eru mikið þannig.

Góður andi

„Það er mjög góður andi hérna allavegana,“ segir Máni og Joey tekur undir. „Það er svo mikill karakter og saga í þessu húsi.“ Máni bætir við að þau gæti þess að andi ömmu hans haldi sér þótt þau standi í ýmsum breytingum.

„Við pössuðum okkur líka á því að halda í suma hluti sem hafa alltaf verið hérna,“ segir hann og bendir á sérkennilegan óróa sem hangir yfir eldhúsborðinu. „Eins og þennan sem maður rekur hausinn í svona tíu sinnum á dag. Og svo fengum við að geyma galdrakarlinn líka.“

„Hún er ættmóðir og þetta er ættaróðal,“ segir aldursforsetinn í hópnum, Kristjón Kormákur, ritstjóri DV, sonur Elísabetar Jökuls­dóttur og Guðjóns Kristinssonar, hleðslu- og trélistamanns.

„Það var jafnvel næstum óþægilegt að keyra hérna fram hjá fyrst eftir að hún dó,“ segir Kristjón um óðalið sem er svo samofið minningunum um ömmu hans. „En að sama skapi er ánægjulegt að þetta haldist áfram innan ættarinnar.“

„Ég hugsa oft til ömmu þegar við erum að gera einhverjar breytingar hérna og hvað ætli hún myndi segja um þetta. Og mér skilst bara að hún sé mjög sátt við þetta eins og þetta er. Ennþá,“ segir Máni og glottir.

Jóhanna í Marokkó fyrir nokkrum árum. "Þetta verður ekki toppað og þú "fokkar“ ekkert í svona ömmu,“ segir Kristjón um ömmu sína.

Hjálpsami töffarinn

Á síðari hluta ævinnar urðu löndin fyrir botni Miðjarðarhafs helsti leikvöllur Jóhönnu. Þar ferðaðist hún út um allt, skipulagði hópferðir og alls konar hjálparstarf, með áherslu á ungar stúlkur í Jemen.

Vera lagði Mið-Austurlandafræði fyrir sig þegar hún hélt utan í framhaldsnám – skyldi hún ekki hafa tekið þessa stefnu undir áhrifum frá ömmu sinni? 

„Jú. Hún var mjög sterkur áhrifavaldur þar og hún hefur haft mikil áhrif á mig alveg frá blautu barnsbeini,“ segir Vera sem hefur starfað hjá RÚV um árabil þar sem hún stjórnar meðal annars hinum vinsælu þáttum Í ljósi sögunnar á Rás 1.

En höfðuð þið aldrei áhyggjur af ömmu þegar hún var á flakki um Mið-Austurlönd þar sem má á öllu eiga von?

„Ég var náttúrlega bara svo lítil að mér var bara sagt þetta, að núna væri amma í Kaíró og nú væri amma í Jemen,“ segir Vera.

„Svo tók ég á móti bréfum frá henni þar sem hún var að segja mér frá lífinu í Kaíró og ég bara tók þessu eins og sjálfsögðum hlut. En auðvitað þegar maður hugsar um þetta núna þá er magnað að kona á þessum aldri fari út í þessi ævintýri.“



Máni grípur orðið: „Ímynd ömmu í huga manns var bara eitthvað svo stór að maður hafði einhvern veginn aldrei áhyggjur af henni, þannig séð. Manni fannst hún svo mikill töffari.“

Jóhanna lét sig alla tíð hag þeirra sem minnst mega sín varða og lét hressilega að sér kveða í góðgerðarmálum. Hún stofnaði Fatímu­sjóðinn 2005 en sjóðurinn beitti sér í upphafi fyrir menntun stúlkna í Jemen og síðan fyrir margvíslegri neyðaraðstoð í Afríku og Mið-Austurlöndum.

„Hún gaf sig alla í þetta. Algjörlega. Hún var fram á síðasta dag að vinna í þessum málum og við ætlum að reyna að halda starfi hennar áfram og sjóðurinn heldur áfram,“ segir Vera.

„Ég held að starf pabba á Grænlandi sé innblásið af því sem amma gerði í Jemen og víðar. Þetta sprettur held ég af sömu innri þörfinni til þess að láta gott af sér leiða,“ segir Máni en hann og Joey hafa síðustu tvö árin verið í fremstu víglínu í gleði- og góðgerðarferðum skákfélagsins Hróksins, sem Hrafn faðir hans stofnaði fyrir 20 árum.



Sálfræðitímar hjá ömmu

Kristjón, Vera og Máni voru mismikið hjá ömmu á Drafnarstíg í æsku en öll eiga þau sterkar minningar þaðan og mótuðust öll að einhverju leyti sem manneskjur innan veggja hússins góða.

„Ég var aðallega mikið hérna á seinni árum. Við Aþena, hundurinn minn, litum nánast alltaf við hérna þegar við vorum í kvöldgöngutúrunum okkar,“ segir Máni.

„Ég var hérna mjög mikið, bæði þegar ég var lítil, og var mikið send hingað að gista, og kom svo mikið í kaffi á seinni árum,“ segir Vera. „Fyrir mig var þetta eins og ókeypis sálfræðitímar. Það voru alltaf tveir stólar hérna og borð á milli og hún settist alltaf í sama stólinn,“ bætir Máni við og Vera tekur undir. „Ég get sagt nákvæmlega það sama. Hún var mjög skilningsrík. En mjög forvitin.“

„Já, mjög forvitin,“ samsinnir Máni. „Fólk var stundum eitthvað að hrósa mér fyrir hvað ég væri duglegur að sinna ömmu minni en ég held nú að ég hafi meira verið að gera þetta fyrir sjálfan mig heldur en ömmu. Og ég fékk örugglega meira út úr þessum heimsóknum. Mér fannst virkilega gott að koma hingað.“

„Þetta voru mjög fínir sálfræðitímar og tíminn leið alltaf svo hratt,“ segir Kristjón. „Maður ætlaði kannski að kíkja í hálftíma eða eitthvað en endaði kannski í tvo, þrjá tíma og fannst maður varla vera búinn að tylla sér niður þegar klukkan var orðin sex, sjö og hún rak mann út til að geta horft á fréttir eða handbolta. Það voru einu skiptin og þá frekar handboltinn. Það voru heilagar stundir hjá henni.“

Sérkennilegur órói sem hangir yfir eldhúsborðinu á Drafnarstíg. Máni segir að þau haldi í suma hluti, líkt og þennan, sem hafa alltaf verið í húsinu.Vísir/Sigtryggur Ari

Alltaf á flakki

Jóhanna skipulagði vinsælar hópferðir til Mið-Austurlanda. Vera segist hafa farið með ömmu sinni í heilmargar ferðir og Máni fór með henni til Egyptalands, Palestínu og Írans.

„Síðan kom hún í brúðkaupið okkar á Hawaii,“ segir Máni. „Joey var með eitthvað um 130 ættingja þarna en ég með um það bil fimm en amma var einn af þeim.“ Og barnabörnin skellihlæja öll enda Jóhanna sjálfsagt ekki minna en hundrað manna maki í þeirra huga.

„Hún skemmti sér virkilega vel. Ég var svolítið áhyggjufullur vegna þess að þetta er langt ferðalag,“ heldur Máni áfram og Joey tekur við: „Það var ótrúlegt að hún skyldi hafa komist. Alveg frá því við sögðum henni að við ætluðum að gifta okkur á Hawaii fór hún í strangt aðhald, líkamsrækt, hugaði að mataræðinu og reykti aðeins minna. Þannig að hún var nógu hraust til þess að fara í þetta langa flug.“

Talandi um reykingar. Maður hefur varla séð mynd af henni frá ferðalögunum fyrir botni Miðjarðarhafs nema með sígarettu á lofti.

„Svo er það þessi mynd þar sem hún er með snákinn. Þar er hún með sólgleraugun, einhvern snák og sígarettu. Þú toppar það ekkert og fokkar ekkert í þannig ömmu,“ segir Kristjón.

Kjarnorkukonan Jóhanna Kristjónsdóttir var dáð víða um land, fyrir bóka- og blaðaskrif sín, allt góðgerðarstarfið og síðast en ekki síst einfaldlega fyrir stórbrotinn persónuleika sinn.

Öll þrjú eru Máni, Vera og Kristjón börn þekktra foreldra og sjálf ekki öllum ókunnug en skuggi ættmóðurinnar er stór.

„Ég fann oft fyrir þessu og þetta var ekki verra ef maður þurfti að komast í náðina hjá fólki eða biðja um eitthvað, þá fann maður alltaf einhverja leið til þess að koma því að að Jóhanna væri amma manns,“ segir Máni.

„Og ef þú lendir í aðstæðum þar sem þú hefur ekkert til þess að tala um þá geturðu alltaf bara sagt: Jóhanna Kristjónsdóttir var amma mín.“ Og enn er hlegið dátt í eldhúsinu á Drafnarstíg.

Þessi brúða hangir á vegg á Drafnarstígnum.Vísir/Sigtryggur Ari

Erfið veikindi

„Amma var alltaf svo mikið í útlöndum og þá var alltaf svo gaman að bíða eftir því þegar hún kom heim vegna þess að hún kom alltaf með Toblerone og bol. Og stundum fótboltabúning.

Þannig að við áttum alltaf fótboltabúninga frá Kúveit og Jórdaníu og eitthvað svona á meðan aðrir áttu Þýskaland og Holland. Mann langaði kannski meira þá að eiga hollenskan búning en núna myndi ég svo vilja vita hvar allir þessir búningar eru.“

Jóhanna hafði alla tíð yfirbragð hörkutólsins og virtist hvorki bregða sér við sár né bana en Kristjón segir glímu hennar við krabbameinið hafa reynt á hana. Oftast kannski meira en hún lét uppi.

„Hún var náttúrlega svo mikill töffari en svo kom að því, þegar hún var búin að vera veik lengi, að við áttum samtöl þar sem hún sýndi á sér veikari hlið. Þar sem hún talaði til dæmis um að hún myndi frekar deyja heldur en að fara í gegnum aðra lyfjameðferð. 

Það er svo vont fyrir svona konu, sem er búin að vera úti um allan heim, koma til dæmis heim fótbrotin eftir að hafa verið handtekin einhvers staðar á herflugvelli eða eitthvað og hafa staðið í því að bjarga lækni frá Írak. Að vera þessi goðsögn sem er alltaf á ferð og flugi og fara svo yfir í að geta ekki hreyft sig.“

Maður óhlýðnast ekki ömmu sinni

Vera segist hafa notið stuðnings og leiðbeininga ömmu sinnar þegar hún byrjaði að vinna í útvarpinu. „Hún hlustaði mikið, sérstaklega þegar ég var að byrja á fréttastofunni. Þá leiðbeindi hún mér um framsögn og svona.“

Vera segir ömmu sína hafa verið með alls kyns sérvisku, ekki síst hvað málfar varðaði og hún gerði skýrar kröfur um að Vera fylgdi málfarsstefnu sinni frekar en þeirri opinberu sem RÚV hefur í hávegum.

„Sádi-Arabar, til dæmis, þjóðin sem býr í Sádi-Arabíu. Amma hataði að talað væri um Sádi-Araba og vildi að það væri talað um Sáda. Og þetta varð ég að standa við og hún kom með alveg langan fyrirlestur um af hverju þetta ætti að vera þannig.“

„Maður fer ekki að óhlýðnast ömmu sinni,“ segir Kristjón glottandi.



Saddam og Arafat uppi á vegg

Vera lagði stund á Mið-Austurlandafræði og þá var oft stuð hjá þeim Jóhönnu. „Það var auðvitað gaman að diskútera þetta allt við hana. Hún hafði náttúrlega sínar skoðanir. Ég ætlaði alltaf að feta í fótspor hennar og ætlaði til Sýrlands, til Damaskus, í arabískunám þar eins og hún gerði. En svo varð ekkert af því út af borgarastyrjöldinni sem skall þar á en ég held enn í vonina um að ég eigi eftir að gera þetta.“

Gengið er inn um þessa fagurrauðu hurð.Vísir/Sigtryggur Ari
Myndir af Saddam Hussein og Yasser­ Arafat héngu í öndvegi á veggjum á Drafnarstíg. „Jájá, Saddam, Arafat og fleiri góðir,“ segir Máni.

Kristjón: „Töluðu þau ekki saman í síma einhvern tímann?“

Vera: „Jú, hún talaði við Saddam í síma.“

Blaðamaður: „Og hvað fór á milli þeirra? Voru þau bara að ræða daginn og veginn?“

Kristjón: „Þetta var þegar hún var að bjarga Gísla lækni frá Írak.“

Jóhanna, þá blaðamaður á Morgunblaðinu, beitti sér mjög í baráttunni fyrir að koma Gísla Sigurðssyni lækni úr landi eftir að hann varð innlyksa í Kúveit og Írak þegar Írakar réðust inn í Kúveit í ágúst 1990. Undir lok þess árs fór hún sjálf til Bagdad til þess að tala máli læknisins við ráðamenn þar.

Genin láta ekki að sér hæða

Kristjón hefur skrifað bækur og fyrir nokkrum árum byrjaði hann í blaðamennsku, ömmu sinni til mikillar ánægju, og ritstýrir nú DV. En er þarna um bein áhrif frá ömmu að ræða?

„Nei. Ég ætlaði alltaf að verða atvinnumaður í fótbolta,“ svarar Kristjón. „Svo klikkaði það og þá fór ég bara að skrifa. Genin láta ekki að sér hæða,“ segir hann háðskur.

„Við ræddum auðvitað mikið um blaðamennsku enda er hún bara ein merkasta fjölmiðlakona landsins og hefur unnið með goðsögnum í þessu. Og var sjálf goðsögn í bransanum.

Það var svo gaman að ræða við hana um hvernig þetta var og heyra sögur hennar af því hvernig var að vera kona í þessum mikla karlaheimi eins og hann var þá. Og þurfa að horfa upp á einhverja karla valda fram yfir hana, sem þótti bara eðlilegt þótt hún stæði þeim kannski miklu framar.

Það er bara svo gaman að ræða við svona gáfað og skemmtilegt fólk svo ég hrósi henni aðeins meira.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×