Innlent

Hafa „hylmt yfir í öðru máli tengdu barnaníði“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ríkisstjórnin á tröppunum á Bessastöðum í nóvember á síðasta ári.
Ríkisstjórnin á tröppunum á Bessastöðum í nóvember á síðasta ári. VÍSIR/ERNIR

Píratar krefjast þess að ríkisstjórn Íslands setji nú réttindi barna í algjöran forgang í máli Braga Guðbrandssonar og sýni bæði frumkvæði sjálf og veiti einnig Alþingi og öðrum eftirlitsaðilum stuðning við að upplýsa málið að fullu og án tafa.

Eins og kom fram á Vísi fyrr í dag hefur Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, boðað Ásmund Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, á fund nefndarinnar. Telur Halldóra að Ásmundur hafi logið í svari við fyrirspurn hennar þann 26.febrúar á þessu ári um ásakanir á hendur Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, í febrúar.

Ámælisvert framferði

„Samkvæmt fréttaflutningi Stundarinnar sem birtist í morgun hafa ráðherrar ríkisstjórnar Íslands hylmt yfir í öðru máli tengdu barnaníði. Ef þær fréttir sem birtust í morgun reynist réttar hefur Bragi Guðbrandsson í starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu beitt sér í trássi við lög, til að þvinga Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, sem hafði forræði á viðkomandi máli, til að verða að kröfum kunningja síns, föður hins grunaða. Slíkt framferði er ámælisvert og munu þingmenn Pírata beita sér fyrir áframhaldandi rannsókn á því hvort Bragi Guðbrandsson hafi framið lögbrot með aðgerðum sínum,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Pírötum.

„Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, hóf frumkvæðisrannsókn á málinu í janúar og hefur velferðarnefnd Alþingis fengið gögn málsins. Fullyrt er að þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir barnaverndarnefnda til félags- og jafnréttismálaráðherra og í kjölfar rannsóknar ráðuneytisins, hafi Ásmundur Einar Daðason ekkert aðhafst. Í stað þess hafi hann sagt ósatt í pontu Alþingis þann 26. febrúar sl. þegar hann svaraði fyrirspurn Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar, á þá leið að „Barnaverndarstofa eða forstjóri hennar hafi ekki brotið af sér með neinum hætti.““

Þau orð túlkar Halldóra sem ósannindi og hefur hún því kallað Ásmund fyrir nefndina.

„Í stað þess að láta Braga sæta ábyrgð á gjörðum sínum er honum verðlaunað með stuðningi ríkisstjórnarinnar við framboð hans til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna,“ sagði meðal annars í tilkynningu Halldóru fyrr í dag. Í tilkynningu Pírata er sagt að þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir barnaverndarnefnda til félags- og jafnréttismálaráðherra og í kjölfar rannsóknar ráðuneytisins, hafi Ásmundur Einar Daðason ekkert aðhafst. Fundurinn hjá velferðarnefnd fer fram mánudaginn 30. apríl. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.