Innlent

Innbrotum fækkað um 48 prósent á milli mánaða

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifa
Innbrotum fækkar á milli mánaða.
Innbrotum fækkar á milli mánaða. Vísir
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 48 prósent færri tilkynningar um innbrot í heimahús í mars en í febrúar samkvæmt afbrotatölfræð fyrir marsmánuð. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að fækkunina megi rekja til þess að lögreglu tókst að hafa hendur í hári sjö manna hóps sem stundaði innbrot með skipulögðum hætti.

Samkvæmt afbrotatölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem birt var í vikunni hefur innbrotum í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu farið fækkandi milli mánaða. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir einkum einn þátt skýra þessa miklu fækkun.

„Við náttúrlega sendum út tilkynningu þarna í janúarmánuði um aukningu á innbrotum inn á heimili frá því í desember. Þetta hélt áfram í janúar og svo fram í febrúar og það er í seinni hluta febrúar sem við handtökum þarna sjö menn. Þeir hafa virst eiga bróðurpartinn af þessum innbrotum og það í rauninni skýrir þessa fækkun sem var síðan í marsmánuði,” segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Þrír mannanna sem um ræðir voru úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald fyrir hálfum mánuði síðan og er stefnt að því að þeir verði ákærðir að sögn Skúla.

„Síðan voru þarna 4 til viðbótar. Sá yngsti 16 ára, það er búið að ljúka máli gagnvart honum og hann er farinn til síns heima. Svo eru tveir í farbanni og síðan sá sjöundi, Íslendingur sem var viðriðinn þessi mál,” segir Skúli.

Þrátt fyrir að tekist hafi að uppræta umræddan hóp er þó áfram þónokkuð um innbrot í heimahús eins og gengur og gerist, en ekki með jafn skipulegum hætti.

„Það er ekki verið að herja á okkur núna með þeim hætti en við þurfum náttúrlega að vera á varðbergi, það er ekki spurning. Þetta getur komið bara allt í einu einhverjir aðilar meðal annars til landsins frá öðrum löndum og farið að herja á okkur með viðlíka hætti og áður,” segir Skúli.


Tengdar fréttir

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna innbrotahrinu

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í dag karlmann í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, eða til 17. apríl, á grundvelli síbrota að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.