Innlent

Kjarabarátta ljósmæðra afleiðing kerfislægs misréttis

Sylvía Hall skrifar
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir kjararáð bera einhverja ábyrgð á uppnámi í kjaraviðræðum ljósmæðra.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir kjararáð bera einhverja ábyrgð á uppnámi í kjaraviðræðum ljósmæðra. Vísir/Ernir
„Það er ekkert hægt að skýra þetta með öðrum hætti heldur en að þetta sé birtingarmynd kerfislægs kynjamisréttis“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um kjarabaráttu ljósmæðra í þættinum Sprengisandi í dag.

Hann var gestur þáttarins ásamt þeim Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, og Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni Framsóknarflokks. Öll voru þau sammála um mikilvægi þess að samningar næðust við ljósmæður sem allra fyrst.

„Það er ekki ljósmæðrum að kenna að kjaraviðræður eru í uppnámi. Það sem miklu frekar hefur skapað það eru fordæmalausar hækkanir kjararáðs og launatoppa í viðskiptalífinu“ sagði Logi.

Hann sagði það vera mikilvægt að taka málið föstum tökum og hvatti þingmenn til að styðja við þingsályktunartillögu Þorsteins Víglundssonar um bætt kjör kvennastétta.

Ummæli heilbrigðisráðherra vandræðaleg

Logi talaði um ummæli sem Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, lét falla í fyrirspurnatíma á Alþingi á mánudag þar sem honum þótti hún gefa í skyn að ljósmæður gætu sjálfum um kennt af því þær hefðu valið vitlaust stéttarfélag.

Hann sagði það vera furðulegt að ljósmæður lækkuðu í launum eftir tveggja ára nám og lýsti yfir áhyggjum sínum vegna uppsagna þeirra á Landspítalanum. Hann sagði söguna hafa sýnt það að ekki allir skili sér til baka eftir uppsagnir og það hafi legið lengi fyrir að erfið staða væri fyrir höndum þegar kæmi að endurnýjun í stéttinni. 


Tengdar fréttir

Lýsa undrun og vanþóknun á ummælum heilbrigðisráðherra

Félag ljósmæðra og Bandalag Háskólamanna segja ummæli Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma í gær benda til þess að hún telji kjör ljósmæðra þeim sjálfum að kenna vegna þess hvaða stéttarfélagi ljósmæður tilheyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×