Innlent

Vandamál hversu fáir karlar nema hjúkrun

Sveinn Arnarsson skrifar
Það er ekki vitað hvað veldur því að karlar vilja ekki læra hjúkrunarfræði. Hjúkrunarfræðingafélagið vill komast til botns í því.
Það er ekki vitað hvað veldur því að karlar vilja ekki læra hjúkrunarfræði. Hjúkrunarfræðingafélagið vill komast til botns í því. Vísir/vilhelm

Félag hjúkrunarfræðinga hefur ákveðið að greiða skólagjöld karla í hjúkrunarfræðum. Er um fimm ára tilraunaverkefni að ræða til að fjölga karlmönnum í hjúkrun. Hlutfall karla í stétt hjúkrunarfræðinga hér á landi er með því lægsta sem þekkist í hinum vestræna heimi.

Háskólinn á Akureyri vinnur nú að samnorrænni rannsókn á hvernig á því standi að karlar séu svo ólíklegir eins og raun ber vitni til að nema hjúkrunarfræði. Aðeins nítján karlmenn eru í hjúkrunarfræði við íslenska háskóla í dag. Að mati Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, er það allt of lítið.

„Stjórn hjúkrunarfræðingafélagsins vinnur nú að því að auka hlutfall karla í hjúkrunarfræðum. Við vitum ekki hvað það er sem veldur því að karlar vilji ekki læra hjúkrunarfræði, við þurfum að komast til botns í því. En við munum reyna að fjölga þeim með því að greiða skólagjöld karla næstu fimm árin til að fjölga körlum í stéttinni,“ segir Guðbjörg.

Gísli Kort Kristófersson, lektor í hjúkrunarfræði

„Þetta hefur gefist ágætlega hjá leikskólakennurum til að mynda og við ætlum að reyna þetta líka. Hvort þetta beri síðan árangur verður svo bara að koma í ljós,“ segir hún.

Gísli Kort Kristófersson, lektor í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, segir það mikilvægt fyrir stéttina að fjölga karlmönnum. 

„Við erum númer eitt í heiminum þegar kemur að jafnrétti en við erum með eitt lægsta hlutfall karla í heiminum í hjúkrun. Í þessu framsækna þjóðfélagi verðum við að finna út hví karlar sæki sér ekki menntun í hjúkrun.“

Hlutfall karlhjúkrunarfræðinga í Bretlandi er um 11,5 prósent og í Noregi er hlutfallið í kringum tíu prósent. Danir eru einnig með lágt hlutfall karlmanna í hjúkrun, um fjögur prósent. 

„Miðað við sum karlastörf, þá er þetta ekkert illa launað, þannig. Við alla vega sjáum enga eina skýringu á því hvers vegna hlutfall okkar bifast ekki. Því viljum við skoða þetta náið með Norðmönnum og Dönum til að sjá hvað við getum gert betur hér á Íslandi til að fjölga karlmönnum,“ segir Gísli. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.