Innlent

Hátt í tuttugu ábendingar út af stolnum tölvubúnaði

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hátt í tuttugu ábendingar hafa borist til lögreglunnar á Suðurnesjum í tengslum við þjófnað á tölvubúnaði úr gagnaverum. Þýfið hefur enn ekki fundist.

Sex hundruð tölvum var stolið úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarbyggð en verðmæti þeirra er talið nema rúm­um 200 millj­ón­um króna. Um er að ræða tölvubúnað sem er sérstaklega hannaður til grafa eftir rafmyntum á borð við Bitcoin.

Innbrotin áttu sér stað á tímabilinu 5. desember 2017 til 16. janúar. Ellefu hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu og einn situr nú í gæsluvarðhaldi.

Eigendur tölvubúnaðarins hafa heitið sex milljónum króna í fundarlaun til þess sem getur veitt áreiðanlegar upplýsingar um hvar búnaðinn sé að finna. Frestur til að skila ábendingu til lögreglu rennur út 12. apríl næstkomandi.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að á annan tug ábendinga hafi borist.

„En þetta hefur hingað til ekki skilað þeim árangri að við höfum fundið þýfið,“ segir Ólafur.

Ekki er útilokað að þýfið sé farið úr landi en Ólafur segir að lögreglan skoði alla möguleika. Hann hvetur fólk til að koma með ábendingar en lögreglan heitir fullum trúnaði í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×