Innlent

Starfsfólk Icewear braut upp hurðir og flúði út um glugga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í Miðhrauni 4 eru fyrirtækin Icewear og Geymslur.is og er húsið við hlið fyrirtækisins Marel.
Í Miðhrauni 4 eru fyrirtækin Icewear og Geymslur.is og er húsið við hlið fyrirtækisins Marel. Vísir/Rakel Ósk
Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear, segir það hafa verið tæpt að starfsmenn fyrirtækisins kæmust út þegar eldur kom upp í húsnæðinu á níunda tímanum í morgun. Aðstæður hafi verið stórhættulegar en brjóta þurfti upp hurðir og þá þurftu einhverjir starfsmenn að forða sér út um glugga.

Aðalsteinn var sjálfur mættur til vinnu á skrifstofu Icewear þegar eldurinn kom upp og gerir ráð fyrir að samtals hafi um 15-20 starfsmenn fyrirtækisins verið á staðnum.

Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear.Mynd/Icewear
„Bjallan hringir bara og allt gerist á einhverjum sekúndum. Eldurinn æðir á móti okkur, hann er fyrst í hinum endanum við lagerinn og svo bara æðir hann á móti okkur á ógnarhraða,“ segir Aðalsteinn í samtali við Vísi.

Brutu upp hurðir og stukku út um glugga

Þá bætir hann við að tæpt hafi verið að starfsmennirnir kæmust yfir höfuð út úr húsinu en hurðir höfðu sogast fastar og fólki reyndist afar erfitt að forða sér.

„Það var mjög erfitt að komast út úr húsinu, hurðir voru lokaðar og fólk þurfti að brjóta þær upp. Svo enduðu einhverjir á því að fara út um glugga,“ segir Aðalsteinn. Allir hafi þó að mestu komist heilir út úr húsinu að Miðhrauni 4 þó að einhverjir kenni brunasára.

„Einhverjir starfsmenn brenndust og a.m.k. einn aðili fékk brunasár. Hann hlaut aðhlynningu á vettvangi.“

 

Hjartað í fyrirtækinu

Þá telur Aðalsteinn ljóst að mikið tjón hafi hlotist af brunanum.

„Það hefur orðið gríðarlegt tjón. Þetta er náttúrulega hjartað í fyrirtækinu, þetta er aðallagerinn, fyrir utan allar skrifstofu, tölvur og slíkt.“

Aðspurður segir hann næstu skref felast í því að meta stöðuna og finna nýtt húsnæði undir starfsemina. Reynt verði að takmarka skaðann eins og hægt er.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×