Innlent

Hér sjá róbótar um að gefa kúnum, mjólka þær og hreinsa undan þeim

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sigurður Baldursson í nýja fjósinu á Páfastöðum.
Sigurður Baldursson í nýja fjósinu á Páfastöðum. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Nýjasta fjós Skagafjarðar kostaði yfir tvöhundruð milljónir króna og gæti verið það fullkomnasta á landinu. Róbótar sjá um að gefa kúnum, mjólka þær og moka flórinn, og felst starf bóndast núna aðallega í því að fylgjast með því að allt gangi vel. Rætt var við Sigurð Baldursson, bónda á Páfastöðum, í fréttum Stöðvar 2.

Kúabændur í Skagafirði eru um fimmtíu talsins. Um tuttugu þeirra standa nú í fjósbyggingum, eru að undirbúa slíkt, eða nýbúnir að reisa fjós. Þeirra á meðal er bóndinn á Páfastöðum. Kunnugir telja að þar sé fullkomnasta fjós Skagafjarðar og jafnvel á öllu landinu.

Þessi róbót ekur um fjósið og skammtar fóðrið í kýrnar.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Það er ekki nýtt að róbótar sjái um að mjólka kýrnar. Hér hafa vélmenni leyst mannshöndina af við öll helstu erfiðisverk. Þannig sér róbót um heygjöfina. Bóndinn hefði annars þurft að moka sjálfur tveimur tonnum af heyi í kýrnar á hverjum degi. 

Hann þarf heldur ekki að moka flórinn lengur. Sérstakur róbót sér um að halda fjósinu snyrtilegu. 

En þetta kostar sitt; 230 milljónir króna kostaði nýju fjósið á Páfastöðum með öllu, segir bóndinn. Hugmyndafræðin er að kúnum líði vel í fjósinu, þannig mjólka þær líka meira, segir hann. 

Frá Páfastöðum í Skagafirði.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Bylgja fjósbygginga gengur nú yfir héraðið.

„Það var kominn líka tími á endurnýjun. Við vorum með gömul fjós. Eins og hérna. Þetta voru 30-40-50 ára gömul fjós og það var kominn tími á endurnýjun. Ef maður ætlar að vera í þessu þá þarf maður að endurnýja framleiðsluaðstöðuna, eins og allt annað,” segir bóndinn. 

Við fjöllum nánar um þetta veglega fjós í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 klukkan 19.25 annaðkvöld, mánudagskvöld.

Hér má sjá myndir úr nýja fjósinu og viðtal við Sigurð bónda:

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×