Innlent

Jayden K. Smith er genginn aftur

Jakob Bjarnar skrifar
Ef svo ólíklega vill til að þér berist vinabeiðni frá Jayden K. Smith, þá er lítil ástæða til að óttast.
Ef svo ólíklega vill til að þér berist vinabeiðni frá Jayden K. Smith, þá er lítil ástæða til að óttast. visir/valli
Jayden K. Smith er risinn frá dauðum, ef svo má að orði komast. Erfitt virðist reynast að kveða þennan draug niður.

„Vinsamlegast segðu öllum vinum þínum að samþykkja ekki Jayden K. Smith. Sem vin Hann er hakkari og hefur kerfið tengt Facebook reikningnum þínum. Ef einhver vinur þinn samþykkir það verður þú líka hökkuð. Haltu textanum inni og smelltu á forward og sendu öllum vinum þínum.“

Blaðamannaður Vísis hefur í dag fengið nokkur slík skilaboð í dag. Vísir fjallaði um Jayden K. Smith fyrir um ári en þá fékk fjöldi grandalausra á Facebook skilaboð í stórum stíl þessa sama efnis, að ekki mætti undir neinum kringumstæðum samþykkja vinabeiðni frá Jayden K. Smith nokkrum. Því hann sé lævís hakkari þæfi sig inn á Facebookreikning þinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þeir sem fá þessi skilaboð eru jafnframt beðnir um að vara alla sína vini við þessum þrjóti með því að senda þeim skilaboð þar að lútandi.

En, eftir því sem næst verður komist er ekki um neitt hakk að ræða, þannig virkar þetta einfaldlega ekki að einhver nái að hakka sig inn í tölvu þína við það eitt að þú samþykkir þann hinn sama sem vin. En, nær lagi er að tala um hrekkjalóm fremur en hakkara; en tölvuþrjótar gera sér einmitt mat úr hrekkleysi fólks.

Eins og umfjöllunin frá í fyrra sýnir þá áttuðu menn sig á þessu um síðir, eftir að Jayden K. Smith hafði tröllriðið Facebook – og upphófst þá hin skemmtilegasta brandarakeppni sem gaman er að rifja upp.

Og ekki vantar að íslenskir húmoristar séu þegar farnir að taka við sér í tilefni af þessum óvænta uppvakningi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×