Innlent

Leiðsögumaðurinn hafði runnið niður eftir ísbreiðu í íshellinum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Íshellirinn sem um ræðir er 150 metra djúpur. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Íshellirinn sem um ræðir er 150 metra djúpur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty

Lögreglan á Suðurlandi tekur nú skýrslur af ferðafólki sem var við íshelli í Blágnípujökli í gær þegar banaslys varð þar. Maðurinn sem lést var íslenskur leiðsögumaður með belgískum hjónum sem keypt höfðu sér fjögurra daga ferð um Ísland samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi.



Í fyrradag var gist á Hveravöllum og hittust þar fyrir aðrir ferðamenn á eigin vegum á öðrum bíl. Úr varð að því fólki í Kerlingarfjöll þar sem til stóð að gista í fyrrinótt og kíkja með þeim í íshellinn í leiðinni. Ferðamenn þessir höfðu meðferðis SO2 mæli sem notaður var til að mæla mengun í hellinum þegar þangað var komið. Farið var inn í hellinn og reyndust loftgæði í hellinum í lagi.

Þegar út var komið ákvað íslenski leiðsögumaðurinn að skjótast inn í hellinn á ný. Einhver stund leið en þegar farið var að huga að heimferð og gáð að leiðsögumanninum sást hann hvergi. Er líta átti í hellinn bar svo við að mælitæki sýndu mjög há gildi mengunar þannig að ekki var unnt að leita þar og því strax kallað eftir aðstoð. Björgunarsveitir frá Norðurlandi, Suðurlandi og Reykjavík voru kallaðar út auk þyrlu Landhelgisgæslunnar. Um var að ræða eina stærstu björgunaraðgerð sem farið hefur verið af stað í hér á landi.  

Hundruð björgunarsveitarsveitarmanna tóku þátt í björgunaraðgerðum við íshellinn í gær en maðurinn fannst þar látinn á tólfta tímanum í gærkvöldi. Björgunarmenn sem fóru inn í hellinn fundu manninn út undir vegg þar sem hann hafði runnið niður eftir ísbreiðu. Hann var þá án lífsmarka. Mælitæki þeirra sýndu mjög há mæligildi SO2 mengunar á þessum stað.

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar var lík mannsins flutt út úr hellinum og síðan með þyrlu LHG til Reykjavíkur. Rannsókn málsins heldur áfram og er nú beðið niðurstöðu krufningar um hvert banamein mannsins var.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×