Innlent

Íslendingur fannst látinn á Hofsjökli

Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Þórdís Valsdóttir skrifa
Hundruð björgunarsveitamanna tóku þátt í björgunaraðgerðum í íshelli í Hofsjökli í kvöld.
Hundruð björgunarsveitamanna tóku þátt í björgunaraðgerðum í íshelli í Hofsjökli í kvöld.

Maðurinn sem leitað var að í íshelli á Blágnípujökli fannst látinn á tólfta tímanum í gærkvöld. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi var maðurinn íslenskur og á sjötugsaldri. Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á tildrögum slyssins en þau liggja ekki fyrir enn sem komið er.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var hann íslenskur leiðsögumaður sem var í skipulagðri ferð á Hofsjökli í gær og fór þá ofan í íshellinn. Samferðafólk hans hafði samband við neyðarlínuna þegar maðurinn skilaði sér ekki aftur upp úr hellinum.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að samferðafólk mannsins hafi verið flutt í skála á Kerlingafjöllum og verði flutt þaðan áfram til byggða. 

Hundruð björgunarsveitarmanna tóku þátt í björgunaraðgerðum í íshellinum á Hofsjökli í gær og sagði Oddur Árnason yfirlögregluþjónn í samtali við Vísi í gærkvöldi að þetta væri ein stærsta aðgerð sem farið hafi verið í hér á landi síðustu ár. Aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar og skyggni var slæmt svo þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti að lenda í Kerlingarfjöllum og þaðan voru björgunarsveitarmenn og reykkafarar fluttir á snjósleðum að hellinum.

Veður hamlaði flugi frá svæðinu en á þriðja tímanum í nótt gátu flugmenn Landhelgisgæslunnar flogið af vettvangi. Í tilkynningu frá lögreglu segir að aðrir sem að verkefninu komu séu á leið til byggða, en að sú ferð gæti tekið nokkurn tíma.

Áhersla lögð á öryggi björgunarmanna

Fyrstu björgunarsveitarmenn voru komnir á vettvang í kringum klukkan níu í gærkvöld en útkallið barst klukkan 18. Á tólfta tímanum voru björgunarsveitarmenn sem voru á leið á staðinn kallaðar til baka. 

Áður en viðbragðsaðilar fóru á vettvang var vitað að styrkleiki brennisteinsvetnis væri hár í hellinum. Því var lagt mikið upp úr því að björgunaraðgerðir væru hraðar og að öryggi björgunarmanna væri tryggt. Á vettvangi voru menn sem þekkja vel til á þessum slóðum og hafa leiðbeint um aðgerðir.

Í tilkynningu sinni þakkar lögreglan öllum björgunaraðilum kærlega fyrir veitta aðstoð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×