Innlent

Eva orðin vondauf um að sonur hennar sé á lífi

Jakob Bjarnar skrifar

„Fjölskylda og vinir Hauks hafa unnið ötullega að því að afla upplýsinga um afdrif hans. Fjölmargir hafa aðstoðað við upplýsingaöflun og þýðingar og ennþá fleiri hafa boðið fram aðstoð sína. Við erum innilega þakklát,“ segir Eva Hauksdóttir í nýrri færslu sem hún birti á síðu sinni nú fyrir skömmu.

Vísir greindi frá því í gær að hún hafi kallað eftir upplýsingum um afdrif sonar hennar Hauks Hilmarssonar.

Talið að Tyrkir hafi líkið

„Við teljum okkur vera búin að púsla sögunni af ferðum Hauks saman í grófum dráttum. Við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að YGP telji hann af og vitum nokkuð nákvæmlega hvar hann féll en við vitum ekki ennþá hvar líkið er. Kúrdar komast ekki inn á árásarsvæðið til þess að leita en það hefur verið leitað á öllum sjúkrahúsum í borginni og hann hefur ekki fundist.“

Eva Hauksdóttir hefur gripið til þess ráðs að leyfa fólki að fylgjast með gangi mála á vefsíðu sinni.

Eva segir að í tyrkneskum fjölmiðlum hafi komið fram að Tyrkir séu með líkið og að það verði sent heim, en enginn hafi haft samband við íslensk yfirvöld vegna þess og þetta gæti verið byggt á sögusögnum eða hreinlega áróðursbragð.

Allt eins líklegt að Haukur hafi grafist í rústum

„Það er allt eins líklegt að hann hafi grafist undir rústum. Við áttum fund með Utanríkisráðuneytinu og Lögreglunni í dag. Þau hafa engar viðbótarupplýsingar en eru í sambandi við sendiráð og stjórnsýslustofnanir víða um heim.“

Eva auglýsir enn eftir upplýsingum.

„Ef svo ólíklega vill til að einhver hafi upplýsingar sem virðast áreiðanlegar um það hvar líkamsleifar Hauks eru niðurkomnar, endilega hafið þá samband við hilmarsson2018@gmail.com eða beint við lögreglu eða Utanríkisráðuneytið. Á þessu stigi hjálpar það ekki að senda okkur fréttatengla eða upplýsingar um einhvern sem er á svæðinu eða þekkir til þar.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.