Innlent

Sagðist vilja sýna samstöðu með baráttufélögunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Haukur Hilmarsson var fæddur árið 1986.
Haukur Hilmarsson var fæddur árið 1986.

Stutt myndband sem sagt er vera af Hauki Hilmarssyni hefur verið birt á YouTube. Þar má sjá hann með byssu í hönd lýsa yfir samstöðu með „byltingunni.“ Haukur er sagður hafa fallið í átökum í Afrin í Sýrlandi í febrúar.



Í myndbandinu segist Haukur ætla sér að berjast við hlið félaga sinna í byltingunni með það að markmiði að verja þann árangur sem náðst hefur.



Líkt og greint var frá í dag  er Haukur sagður hafa gengið til liðs við YPG, her sýrlenskra Kúrda, í gegnum gríska anarkistahópinn RUIS sem tilheyrir alþjóðlegri frelsishreyfingu tengdri stríðinu í Sýrlandi árið 2017.



International Freedom Batallion, samtök vinstri sinnaðra erlendra meðlima YPG, sagði frá falli Hauks á Facebook í gær en á myndbandinu má sjá merki hreyfingarinnar.



Haukur er sagður hafa látist í loftárás tyrkneska hersins þann 24. febrúar síðastliðinn ásamt tveimur arabískum liðsfélögum.



Var það hluti af áhlaupi tyrkneska hersins og uppreisnarmanna sem studdir eru af Tyrkjum á Afrin-hérað sem hefur verið nefnt „Operation Olive Branch“. YPG-liðar hafa barist gegn Tyrkjum í héraðinu ásamt sveitum sem studdar eru af yfirvöldum í Íran.



Embætti ríkislögreglustjóra, auk utanríkisráðuneytisins reynir að afla upplýsinga um afdrif Hauks. Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, ritaði stutta grein á bloggsíðu sína fyrr í dag þar sem hún óskaði eftir upplýsingar um Hauk sem mögulega gætu varpað ljósi á mál sonar hennar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×