Innlent

„Blár ofurmáni“ á himni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Seinna fulla tunglið er kallað blátt tungl þar sem það er seinna fulla tunglið í sama mánuðinum, þó að liturinn sé ekkert öðruvísi en venjulega, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum.
Seinna fulla tunglið er kallað blátt tungl þar sem það er seinna fulla tunglið í sama mánuðinum, þó að liturinn sé ekkert öðruvísi en venjulega, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum. vísir/vilhelm
Í dag, miðvikudaginn 31. janúar klukkan 13:27 að íslenskum tíma verður tunglið fullt í annað skiptið á þessu ári og þannig í annað skiptið í janúar.

Seinna fulla tunglið er kallað blátt tungl þar sem það er seinna fulla tunglið í sama mánuðinum, þó að liturinn sé ekkert öðruvísi en venjulega, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum.

Þar segir jafnframt að fulla tunglið í dag sé nálægt því að vera næst Jörðu svo þetta bláa tungl er líka svokallaður fullur „ofurmáni.“ Það má því segja að um „bláan ofurmána“ sé að ræða þó enginn sjáanlegur munur sé á fulla tunglinu nú og því fulla tungli sem var á himnum aðfaranótt 2. janúar.

„Fulla bláa tunglið 31. janúar er þó merkilegra fyrir þær sakir, að það gengur inn í skugga Jarðar og myrkvast að fullu — reyndar ekki frá Íslandi séð. Fullt tungl sést aðeins frá næturhlið Jarðar og fyrst tunglið er fullt á hádegi á íslenskum tíma sést tunglmyrkvinn aðeins hinumegin á Jörðinni.

Íslendingar sem staddir eru á vesturströnd Bandaríkjanna, Hawaii og í austurhluta Asíu og Ástralíu geta þó séð tunglmyrkvann,“ segir á Stjörnufræðivefnum þar sem lesa má nánar um bláa ofurmánann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×