Sport

Önnur íslensk krossfit drottning komin með milljón fylgjendur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Instagram-síða Söru
Íslensku krossfit drottningarnar eru vinsælar á samfélagsmiðlum og ekki síst á Instagram. Það vilja margir fylgjast með því hvað íslensku dæturnar eru að gera.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir fagnaði stórum tímamótum í þessari viku því hún fékk þá sinn milljónasta fylgjenda á Instagram.

Íslensku stelpurnar eru í fararbroddi að leyfa aðdáendum sínum að fylgjast með því sem þær eru að ganga í gegn um á æfingum, í keppni eða bara í hinu daglega lífi.  

„Ég gat aldrei ímyndað mér að ég næði þrisvar sinnum íbúafjöldanum á Íslandi = milljón fylgjendur. Ruglað að ég hafi náð þessu núna. Takk til allra fyrir að taka þátt í þessu ferðalagi með mér,“ sagði Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í færslu á Instagram þegar hún vakti athygli á þessum tímamótum.

Katrín Tanja Davíðsdóttir var á undan Söru upp í milljón fylgjendur en hún náði því á síðasta ári. Anníe Mist Þórisdóttir er síðan þriðja meðal íslensku krossfit stelpnanna en hún er með 745 þúsund fylgjendur á Instagram.

Aðeins tveir aðrir Íslendingar hafa náð milljón fylgjendum en það eru tónlistakonan Björk og kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson.

Ragnheiður Sara er að koma til baka eftir að hafa rifbeinsbrotnað í lok ársins 2017. Það mun taka hana tólf vikur frá meiðslunum þangað til að hún kemst á fullt skrið aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×