Innlent

„Alveg rólegur“ þrátt fyrir lögregluaðgerðir í lundabúðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Guðmundsson segist í samtali við Vísi alveg rólegur með stöðu mála.
Sigurður Guðmundsson segist í samtali við Vísi alveg rólegur með stöðu mála. vísir/stefán
Lögreglumenn í Reykjavík og á Akureyri lokuðu þremur verslunum The Viking síðdegis í gær, tveimur í miðbæ Reykjavíkur og einni norðan heiða. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir lögreglu hafa farið í aðgerðirnar að beiðni tollstjóra.

„Við vorum að fylgja eftir ákvörðun tollstjóra um að loka þessu fyrirtæki vegna vanskila á vörslusköttum,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Vísi.

Lögmaður Tollstjóra segir í samtali við RÚV, sem greindi fyrst frá, að almennt séð séu vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu laungreiðenda algengust. Hann geti þó ekki tjáð sig um einstök mál.

Sigurður Guðmundsson, eigandi The Viking, sagðist í samtali við Vísi vera „alveg rólegur“ vegna aðgerða lögreglu. Verið væri að vinna úr málinu og þegar það væri úr sögunni gæti hann tjáð sig nánar um málið.

The Viking er með verslanir í Hafnarstræti og á Skólavörðustíg í Reykjavík auk verslunarinnar í göngugötunni á Akureyri.

Sigurður er fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri og hefur verið verðlaunaður fyrir árangur sinn í verslun. Hann var í ítarlegu viðtali á Vísi í október 2015 þar sem til umræðu var meðal annars gróði af ferðamannaverslunum, oft nefndar lundabúðir, og hvernig honum væri misskipt.


Tengdar fréttir

Lundagróðinn er mikill og honum er misskipt

Milljarða velta er af rekstri hinna svokölluðu lundabúða. Álagning er óheyrileg – varan er að mestu fjöldaframleidd í Kína; seld sem íslensk sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×