Innlent

Hótað að börnin verði tekin af þeim og þær svo sendar úr landi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Samtök kvenna af erlendum uppruna reyna að bjóða konum upp á fræðslu og aðstoða en erfitt er að ná til kvenna sem eru einangraðar af eiginmönnum sínum.
Samtök kvenna af erlendum uppruna reyna að bjóða konum upp á fræðslu og aðstoða en erfitt er að ná til kvenna sem eru einangraðar af eiginmönnum sínum. Vísir/Getty
Formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna telur að konurnar þori oft ekki að flýja aðstæður þar sem þær verða fyrir áreitni eða ofbeldi, af ótta við hvaða afleiðingar það hafi.

„Þessar sögur komu mér ekki á óvart. Ég er búin að heyra þær í mörg ár í vinnu minni með W.O.M.E.N. Það er mjög erfitt að heyra svona sögur og geta ekki hjálpað meira,“ segir Angelique Kelley. Hún hefur unnið með samtökunum W.O.M.E.N. síðan 2011 og er núverandi formaður. W.O.M.E.N. stendur fyrir Women of multicultural ethniciy network eða Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. W.O.M.E.N. samtökin aðstoða konur af erlendum uppruna í tengslum við MeToo yfirlýsinguna, áskorunina og reynslusögurnar sem birtust í fjölmiðlum á dögunum.

„Hún Nicole Mosty hafði samband við okkur og spurði okkur hvort W.O.M.E.N vildi ekki vera í samvinnu við hana, að láta konur af erlendum uppruna vita að röddin þeirra myndi líka heyrast í þessari baráttu. Auðvitað sögðum við já. Það er ekki oft sem þær fá að heyrast í íslensku samfélagi.“

Oftast eru þær hræddar

Hátt í 700 konur eru í lokuðum umræðuhóp kvenna af erlendum uppruna. Þó skrifuðu aðeins tæplega hundrað undir yfirlýsinguna sem birtist í fjölmiðlum ásamt 34 nafnlausum reynslusögum. Angelique segir að hún viti ekki ástæðuna fyrir því að svo margar völdu að skrifa ekki nafnið sitt á undirskriftalistann.

„Það getur verið að konurnar séu að misskilja hvað undirskriftalistinn er, halda kannski þetta sé játning um að þær hafi sjálfar orðið fyrir ofbeldi. Kannski eru þær hræddar að skrifa undir, við erum ekki alveg viss.“

Sögurnar voru mjög átakanlegar og á mörgum þeirra mátti sjá að konan væri enn í aðstæðunum, hvort sem það var í ofbeldisfullu sambandi eða á vinnustað þar sem hún yrði fyrir áreitni. Angelique telur að ástæðan fyrir því sé ótti.

„Oftast held ég að þær séu hræddar, það er búið að segja þeim að þær fái hvergi vinnu annars staðar og sumar hafa ekki efni á því að hætta. Ef þær eru með börn og í sambandi með ofbeldisfullum manni er þeim oft sagt það að ef þær skilja við manninn verða börnin tekinn af þeim og þær verði bara á götunni eða sendar úr landi, þær þekkja ekki réttindi sín. Þessar konur eru ekki heldur með tengslanetið sem flestar íslenskar konur eru með, það er enginn mamma, pabbi, bróðir, systir eða frænka til að hjálpa og að leita til.“

Gefa þeim rödd

Markmið W.O.M.E.N. samtakanna er að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna af erlendum uppruna á öllum sviðum samfélagsins.

„Samtök kvenna af erlendum uppruna á íslandi eru NGO samtök (non government origanization) og erum við allar hjá W.O.M.E.N er í sjálfboðavinnu. Samtökin eru búin að vera starfandi síðan 2003 og hlutverk samtakanna er að sameina, takast á við og ljá hagsmuna- og áhugamálum kvenna sem sest hafa að á Íslandi rödd. Við hjá W.O.M.E.N erum að vinna að því að veita konum upplýsingar um réttindi sín og bara almennt upplýsingar um hvernig það er að vera kona á Íslandi.“

Samtökin hafa unnið að málefnum innflytjenda í mörg ár og hafa verið í samvinnu við mörg samtök og stofnanir sem eru að vinna að málefnum innflytjenda. Sem dæmi má nefna að konur frá W.O.M.E.N eru með sæti í innflytjendaráði, stjórn Kvennaathvarfsins, velferðavaktinni og í fleiri samtökum.

Angelique Kelley formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna.
Virða trúnað við konurnar

„Við erum með jafningjaráðgjöf aðra hverja viku á þriðjudagskvöldum, þar sem við erum nokkrar konur af erlendum uppruna, og stundum Íslenskar konur sem sitja í skrifstofu okkur frá klukkan 20 til 22 og eru til staðar fyrir konur ef þeim vantar upplýsingar og aðstoð. Þetta er ókeypis þjónusta og konurnar eru sjálfboðaliðar. Við erum líka með þagnarskyldu svo að konur treysti sér að tala við okkur.“

Samtökin eru búin að skipuleggja nokkur sjálfstyrkingarnámskeið í gegnum árin, eitt sjálfsvarnarnámskeið og eru að vona að þær fái styrk til að halda þessu áfram.

„Við erum í samvinnu með Borgarbókasafninu með Söguhring kvenna, The Women's Story circle, þar sem konur af erlendum uppruna og íslenskar konur koma saman í öruggu umhverfi og spjalla, deila sögum og hafa gaman. Við tökum þátt eins oft og hægt er í viðburðum eins og Alþjóðlega konudeginum, 8. mars, Kvennafrídeginum, Fundi fólksins, Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti og svo framvegis.“

Bjóðast til að vera tengslanetið þeirra

Angelique er frá Bandaríkjunum og flutti til Íslands árið 1987, þá 19 ára gömul. Hún telur að sín reynsla af því að búa hér hefði kannski verið öðruvísi ef hún hefði ekki verið með svona gott tengslanet. „Mín reynsla hefur verið bara mjög góð. Ég hef tengslanet hér, mamma mín er Íslendingur og ég er með fjölskyldu. Ég er líka gift mjög góðum manni.“

Angelique telur að besta leiðin til þess að valdefla konur af erlendum uppruna sé að upplýsa konurnar um réttindi sín. Hún segir þó að vandamálið sé að ná til kvenna sem eru einangraðar af maka sínum.

„Næsta skref er bara að halda áfram, ekki gleyma þessum konum, halda áfram að ýta á stjórnvöld, hafa augun opin og sjá þessar konur sem hluta af íslensku samfélagi. Við hjá WOMEN munum halda áfram að veita konum upplýsingar um réttindi sín og vera tengslanetið þeirra eins lengi og við erum starfandi.“

Hún segir að það þurfi að gera breytingar til að vernda fólk sem er að verða fyrir áreitni, útilokun, fordómum og ofbeldi.

„Ég held að lögin séu til staðar til að verja fólk, en það virðist ekki vera auðvelt ferli að leita réttar síns. Þetta er erfitt, ég veit að stjórnvöld eru harmi slegin að heyra allar þessar sögur eins og flestir hér á Íslandi. Öllum þessum sögum, ekki bara frá konum af erlendum uppruna. Það er ekki bara útlenskar konur sem verða fyrir ofbeldi það er íslenskar konur, erlendir og íslenskir karlmenn og börn sem eru einnig að þjást. Þetta er lítið land, þekkja ekki allir einhver sem hefur orðið fyrir ofbeldi af þessu tagi? Kannski þarft að breyta lögum og vera með strangari lög. Ég vildi óska þess að ég hefði einfalt svar, þetta er alls ekki auðvelt fyrir stjórnvöld að vinna í, en það er greinilega þörf fyrir breytingar.“

Samtök kvenna af erlendum uppruna og Nicole Mosty verða með viðburð í næstu viku fyrir konur af erlendum uppruna. Það verður fræðslukvöld og lögreglan, Kvennaathvarf og Bjarkahlið verða á staðnum til að fræða konurnar og svara spurningum. Einnig verða umræður í tengslum við MeToo. Viðburðurinn fer fram þann 8. febrúar.


Tengdar fréttir

Ofbeldið gegn erlendu konunum annars eðlis

Varaformaður W.O.M.E.N., félags kvenna af erlendum uppruna, telur mikilvægt að bæta upplýsingagjöf til þessa hóps og tryggja að gætt sé að réttindum allra. Hún segir hópinn vera sérstaklega berskjaldaðan og oft með engan stuðning.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×