Á vefnum opnirreikningar.is, þar sem birtar eru reikningsupplýsingar úr fjárhagskerfi ríkisins til að auka gagnsæi, er að finna nýbirtan reikning frá Góðum samskiptum til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 3. október. Hljóðar hann upp á 872 þúsund krónur fyrir sérfræðiþjónustu.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvaða þjónustu embættið hefði keypt af Góðum samskiptum segir Halldór Halldórsson, fjármálastjóri LRH, fyrirtækið hafa komið að yfirstandandi stefnumótun í upplýsingamálum með embættinu.

Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu starfar nú þegar að minnsta kosti einn kynningar- og upplýsingafulltrúi, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson.
Spurður nánar út í það hvers eðlis aðkoma fyrirtækisins er að því að svara fjölmiðlum, hvort fyrirtækið sé að fá áframsendar fyrirspurnir fjölmiðla til lögreglu um tiltekin mál og svara þeim, kveðst Halldór ekki þekkja það nákvæmlega.
„En ég reikna með að þetta sé svipuð þjónusta og þjónusta Gunnars Rúnars, fjölmiðlatengiliðsins okkar, laga til orðalag og þess háttar.“
Halldór segir að reikningurinn sem birtist á vefsíðunni hafi verið fyrir aðkeypta þjónustu af fyrirtæki almannatengilsins Andrésar Jónssonar á tímabilinu 20. mars til 30. ágúst. Þá beri að athuga að virðisaukaskatturinn fáist endurgreiddur og kostnaðurinn sé því rúmlega 703 þúsund krónur.