Tæpur helmingur barna fæddra árið 2016 var í leikskóla í desember síðastliðnum. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofunni en alls voru um 19.000 börn í leikskólum landsins.
Afar misjafnt var eftir landshlutum hversu hátt hlutfall barna fæddra 2016 var í leikskólum. Þannig var hlutfallið tæp 70 prósent á Austurlandi og Vestfjörðum en einungis ellefu prósent á Suðurnesjum.
Fjöldi starfsfólks í leikskólum landsins var rúmlega 6.000 og voru konur tæp 94 prósent þeirra. Tæp 27 prósent starfsfólks voru með leikskólamenntun og hefur það hlutfall farið lækkandi undanfarin ár.
Aftur á móti fer starfsfólki með aðra uppeldismenntun fjölgandi og var hlutfall þess rúm 18 prósent.
