Lífið

Heiðar Logi bjargar sér í Málmey – Dagur 3: „Ég held jafnvel að ég sé korter frá því að skíra bolta Wilson“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Heiðar Logi, brimbrettakappi, lætur reyna á sjálfsbjargarviðleitni sína því hann ætlar að bjarga sér einn án matar og vatns í fjóra daga í Málmey.
Heiðar Logi, brimbrettakappi, lætur reyna á sjálfsbjargarviðleitni sína því hann ætlar að bjarga sér einn án matar og vatns í fjóra daga í Málmey.
Brimbrettakappinn Heiðar Logi Elíasson ætlar að bjarga sér einn í fjóra daga í Málmey í Skagafirði án vatns og matar. Hann fór af stað á miðvikudagsmorgun og var seinna um daginn skutlað yfir í Málmey á þyrlu.

Vísir mun sýna samantekt af Snapchat-reikningi Heiðars (heidarlogi) daglega á meðan hann dvelur í Málmey.

Dagur þrjú fór vel af stað hjá Heiðari en hann snæddi rabarbaragraut í morgunmat og sólin skein.

„Þetta er fyrsta heita máltíðin mín og þannig að það er næs. Og til að toppa þetta þá er alveg geggjað að borða morgunmatinn og hafa þetta útsýni,“ segir Heiðar sem naut sín fallegri náttúru.

Heiðar hélt þá út á sjó í leit að æti. Hann hafði vonast til þess að finna fisk en ekkert veiddist þrátt fyrir að hafa verið í sjónum í rúmar tvær klukkustundir.

„Úff þetta gekk ekki eins og ég átti von á. Ég var í svona tvo tíma að leita og leita út í sjó. Mér er orðið ískalt og ég fann ekkert nema eitthvað smotterí,“ sagði Heiðar fremur vonsvikinn.

Hann fékk þó beltisþara og smokkfisk sem hann borðaði með bestu lyst. „En ég ætla nú ekki að fara að kvarta yfir því sem ég fann ekki heldur ætla ég að njóta þess sem ég fann og nýta mér það,“ sagði Heiðar sem auðsjáanlega hefur jákvætt viðmót að leiðarljósi.

Þá sagðist Heiðar hafa dottið í lukkupottinn þegar hann fann að því er virtist eina staðinn á eyjunni þar sem voru krækiber. „Ég held ég hafi aldrei verið jafn ánægður með að vera með krækiberjatennur,“ sagði Heiðar sigri hrósandi.

„Ég held jafnvel að ég sé korter frá því að skíra bolta Wilson,“ sagði Heiðar og vísaði í kvikmyndina Cast Away með Tom Hanks í aðalhlutverki.

Þetta var síðasti heili dagurinn hans Heiðars á eyjunni því hann verður sóttur á morgun.

Hér að neðan má sjá hvernig dagur þrjú gekk hjá Heiðari.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×