Innlent

Langtímaspá nær nú til aðfangadags

Birgir Olgeirsson skrifar
Líkur eru á að spáin breytist frá degi til dags.
Líkur eru á að spáin breytist frá degi til dags. vísir/vilhelm
Langtímaveðurspáin fyrir aðfangadag hefur litið dagsins ljós á norska veðurvefnum Yr.no. Tekið skal fram að langtímaveðurspáin er langt frá því að vera nákvæm að áreiðanleg. Ekki er hægt að styðjast við upplýsingar frá langtímaveðurspám ef leggja á land undir fót fyrir eða um jólin.

Þeir sem eru á þeim buxunum ættu að kynna sér færð og veður á vef Vegagerðarinnar og vef Veðurstofu Íslands áður en lagt er af stað og fylgjast vel með nýjustu spám. 

Samkvæmt þessari langtímaspá, sem nær til sunnudagsins 24. desember, verður hiti við frostmark í Reykjavík á aðfangadag og að öllum líkindum slydda eða snjókoma. Gert er ráð fyrir að þriggja til fimm stiga hita í Reykjavík á Þorláksmessu og líkur á lítilsháttar úrkomu.

Á Akureyri verður um fjögurra til sex stiga frost á aðfangadag og mögulega von á lítils háttar ofankomu um kvöldið. Á Þorláksmessu verður um tveggja til fjögurra stiga hiti yfir daginn en frost um kvöldið, annars úrkomulaust.

Á Ísafirði verður hiti um og yfir frostmarki á aðfangadag, létt suðlæg átt en annars skýjað, jafnvel smá ofankoma fyrir hádegi. Á Þorláksmessu verður hins vegar hiti um 2 til 4 stig yfir daginn og mögulega smá úrkoma.

Á Húsavík verður léttskýjað á aðfangadag, gangi langtímaspáin eftir sem ekki er hægt að segja að séu miklar líkur á. Hiti verður um eitt til þrjú stig. Á Þorláksmessu verður hiti 3 – 5 stig, úrkomulaust og létt suðlæg átt.

Á Egilsstöðum verður frost á bilinu 4 – 6 stig, úrkomulaust og létt suðlæg átt á aðfangadag. Á Þorláksmessu verður hiti á bilinu 2 – 3 stig og úrkomulaust.

Á Höfn í Hornafirði verður hiti um 2 stig á aðfangadag, úrkomulaust fram eftir degi en einhver ofan koma um kvöldið. Á Þorláksmessu verður hiti um 3 – 5 stig á Höfn í Hornafirði en úrkomulaust.

Á Selfossi verður hiti um frostmark, einhver úrkoma og suðlæg átt. Svipaða sögu er að segja af Þorláksmessu á Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×