Innlent

Enginn fótur fyrir Gróusögu á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir ekkert til í fullyrðingum Elsu Láru Arnardóttur þingmans Framsóknarflokksins á Alþingi í dag, að hann sé að semja um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Það gerist ekki oft að þingmenn vitni beinlínisí gróusögur í ræðustól Alþingis. En það gerðist í dag þegar þingmaður Framsóknarflokksins sagðist hafa heyrt á göngum þingsins að heilbrigðisráðherra væri búinn að semja um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfnu.

„Það er margt sem hægt væri að ræða hér í dag hvað varðar störf þingsins. Má þar meðal annars nefna að aðilar hafa komið að máli við nokkra háttvirta þingmenn og sagt að nú þegar hefði háttvirtur heilbrigðisráðherra gefið leyfi fyrir því að fyrsta einkarekna sjúkrahúsþjónustan hér á landi geti hafið þjónustu sína. Ég háttvirtur þingmaður hef ekki heyrt fréttir þessa efnis frá hæstvirtum heilbrigðisráðherra og þetta mál hefur ekki komið fyrir háttvirt Alþingi. Ég get því ekki annað en spurt hér í ræðustól Alþingis hvort hæstvirtur heilbrigðisráðherra sé búinn að stíga stærstu skref í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins án þess að koma með málið hér inn til þingsins. getur einhver háttvirtur þingmaður ríkisstjórnarinnar upplýst okkur um málið,“ sagði Elsa Lára.

Fréttastofan spurði heilbrigðisráðherra að þessu fyrir þingmanninn.

Varstu að ganga frá einhverjum samningum í dag?

„Nei ég hef nú ekki gert það. Ég var ekki í þingsal en þetta kemur mér á óvart. Vegna þess að eins og ég hef marg oft sagt meðal annars í þingsal, þá stendur ekki til hjá mér að gera neinar stórar breytingar á heilbrigðiskerfinu eða semja sérstaklega um einkavæðingu eða aukinn einkarekstur. Þannig að ég verð eiginlega að vísa þessu til föðurhúsanna,“ sagði Óttarr Proppé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×