„Héraðsprestur annast meðal annars afleysingar og skipuleggur fræðslumál á þjónustusvæði sínu,“ segir í bréfi sem sent er fyrir hönd biskups til kirkjuráðs. Kemur fram að ákvörðunin um flutning Páls til í starfi muni gilda út núverandi skipunartíma hans, sem sé til 30. nóvember 2018.
Við þessi tímamörk í starfi sem héraðsprestur sætti Páll sig ekki og vísaði í svarbréfi til biskups í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og sagðist vera að bíða eftir nýju skipunarbréfi sem gilti frá 1. júlí 2017 til 30. júní 2022.

Þá segir Páll að hann eigi að njóta sömu kjara í nýja starfinu eins og hann hefði setið út skipunartímann þar, sem sagt til 30. nóvember 2018.
„Með ákvörðun biskups er ég sviptur lögboðnum réttindum til að hagnýta jörðina og njóta þeirra hlunninda sem hefðu átt að fylgja jörðinni Staðastað í Snæfellsbæ og eru órjúfanlegur hluti af launakjörum sóknarprests í prestakallinu sem jörðin tilheyrir,“ skrifar Páll.
Biskup kveðst í bréfi sínu gera ráð fyrir að Páll hafi þegar flutt af Staðastað og þurfi ekki að flytja búslóð eða annað af staðnum. Eigi hann einhverja hluti á staðnum verði hann búinn að fjarlægja þá áður en hann skili lyklunum í síðasta lagi 12. júlí.
Páll segir ályktun biskups ranga. „Það hefur margsinnis komið fram í erindum bæði frá mér og lögmanni mínum til biskups og kirkjuráðs að töluvert magn af innbúi er enn þá á Staðastað í minni eigu,“ segir í svarbréfi hans. Þessir hlutir séu jafnvel ónýtir enda verið óvarðir í framkvæmdum í kjölfar þess að hann flutti af Staðastað vegna myglu í prestsbústaðnum.
„Þrátt fyrir að ástand innbúsins sé með þeim hætti þá skal ekki við því hreyft fyrr en nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir og rannsóknir hafa farið fram svo rannsóknarhagsmunum verði ekki spillt meira en orðið er og kirkjuráð fyrir hönd kirkjumálasjóðs ber fulla ábyrgð á,“ skrifar presturinn.

„Tegundagreining myglu og örvera er nauðsynleg svo læknisfræðileg rannsókn geti átt sér stað með fullnægjandi hætti,“ rekur Páll. Upplýsingum sem hann eigi rétt á að fá hafi kerfisbundið verið leynt. „Þessum leyndarhjúp og óvissu ásamt svörum við öðrum álitaefnum sem lögð hafa verið fram þarf kirkjumálasjóður að aflétta án tafar og er alfarið á ábyrgð kirkjuráðs og biskups Íslands.“
Agnes biskup hafði reyndar í bréfi til lögmanns Páls áður sagst vonast eftir að samkomulag tækist vegna hlunninda og tekna sem Páll hefði haft af jörðinni á Staðastað hefði hann setið hana út skipunartíma sinn. Í svarbréfi til Páls hafnar hún hins vegar þeim skilningi hans að skipa beri hann sem héraðsprest allt til ársins 2022.
„Slík túlkun væri þar að auki í mikilli mótsögn við eitt meginmarkmiða þeirra sem greind eru í almennum athugasemdum við frumvarpið, það er um aukinn sveigjanleika í starfsmannahaldi,“ skrifar biskup Páli og segir greinargerðir með lagafrumvörpum ekki hafa lagagildi. Hvað snerti önnur álitamál sem Páll nefni þá varði þau prestsetursjörðina og þau heyri undir kirkjuráð.
Enginn situr Staðastað í augnablikinu en Hjálmar Jónsson, fyrrverandi dómkirkjuprestur, var í lok júní settur sem sóknarprestur þar tímabundið til fjögurra mánaða. Biskup hefur ekki enn auglýst embættið til umsóknar.
„Við erum undrandi á að hafa ekkert heyrt hvað verður eftir 1. nóvember þegar tími séra Hjálmars hér á að vera liðinn,“ segir Kristján Þórðarson, formaður sóknarnefndar í Staðastaðarprestakalli.