Hætt er við því að færð muni teppast víða um land fljótlega eftir þjónustutíma Vegagerðarinnar lýkur í kvöld. Von er á mikilli snjókomu sunnan- og suðvestanlands seint í kvöld og í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Þar segir einnig að hægur vindur verði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Hvassara verði þó fyrir austan fjall og í Borgarfirði og fylgi því skafrenningur. Með ströndinni á Austfirði mun setja niður talsverðan krapa eða bleytusnjó. Norðaustan- og austanlands mun hvessa og fjúka í skafla.
Færð og aðstæður á vegum
Það er hálka bæði á Hellisheiði í Þrengslum en hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Suðurlandi. Eins er hálka, hálkublettir og snjóþekja á vegum á Vesturlandi.
Enn er sums staðar skafrenningur á Vestfjörðum, þar er víðast hvar snjóþekja eða hálka.
Á vestanverðu Norðurlandi eru aðalleiðir víða auðar eða aðeins í hálkublettum en meiri hálka er á útvegum. Í Þingeyjarsýslum er hálka aðallega til landsins en eitthvað um hálkubletti eða autt með ströndinni
Á Austurlandi er hálka á Héraði en mikið er autt niðri á Fjörðum, og með suðausturströndinni er hvergi meira en hálkublettir.
Von á að færð teppist í kvöld
Samúel Karl Ólason skrifar
